Útlit er fyrir að Íslendingar fái um 57 þúsund fleiri skammta af bóluefni frá Pfizer á öðrum árafjórðungi heldur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Það nægir til að bólusetja nærri 28.500 manns.
Sé miðað við tölur frá Noregi má reikna með að um 170 þúsund Íslendingar verði bólusettir fyrir sumarið, eða sem nemur um 65% fullorðinna Íslendinga.
Skandinavískir fjölmiðlar greina frá því að Evrópusambandið og Pfizer hafi samið um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni umfram það sem áður hafði verið samið um, og auk þess kauprétt að 100 milljónum skammta til viðbótar. Hluta þessa verður úthlutað strax á öðrum ársfjórðungi.
Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að Norðmenn fái 840.000 skammta til viðbótar frá Pfizer á öðrum ársfjórðungi. Þar sem bóluefnum er úthlutað til Evrópuríkja í beinu hlutfalli við íbúafjölda er ljóst að það samsvarar um 57 þúsund skömmtum fyrir Ísland.
Bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca hefur enn fremur gefið út að það hafi nú „fundið“ fleiri skammta af bóluefni í verksmiðjum sínum og muni geta aukið framleiðslu sína um allt að 50% miðað við það sem til stóð, að því er segir í frétt sænska ríkissjónvarpsins.
Evrópusambandið hefur beitt fyrirtækið miklum þrýstingi fyrir að hafa ekki getað staðið við afhendingaráætlanir sínar en eftir fund með framkvæmdastjórn sambandsins í gærkvöldi tilkynnti félagið að fleiri skammtar yrðu sendir til Evrópu.
Alls gera norsk stjórnvöld nú ráð fyrir að 5 milljónir skammta muni alls hafa borist til Noregs fyrir sumarið, eða sem nægir til að bólusetja 2,5 milljónir manna. Séu þessar tölur heimfærðar á Íslendinga jafngildir það því að um 170.000 Íslendingar verði bólusettir á þeim tíma, eins og áður segir.