Braut gegn eiginkonu og fjórum börnum

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í sex mánaða fangelsi og til greiðslu 1,6 milljóna króna í miskabætur fyrir alvarlegt ofbeldisbrot gegn fyrrverandi eiginkonu sinni og fjórum ungum börnum þeirra.

Einnig var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar á meðal málsvarnarlaun verjanda síns upp á rúmar 1,4 milljónir króna og þóknun réttargæslumanns brotaþola upp á rúmar 2,3 milljónir króna.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á árunum 2016 til 2020 brotið gegn barnaverndarlögum með því að hafa ítrekað veist að syni sínum með ofbeldi og látið bræður þeirra tvo halda honum á meðan maðurinn sló son sinn með plastslöngu og inniskó undir iljarnar. Dóttir þeirra varð vitni að háttseminni. Einnig var hann ákærður fyrir að hafa slegið annan son sinn í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir.

„Með háttseminni sýndi hann börnum sínum ógnun, vanvirðandi hegðun, yfirgang og ruddalegt athæfi,“ segir í dóminum.

Einnig var maðurinn ákærður fyrir að hafa í september 2019 veist með ofbeldi að eiginkonu sinni og barnsmóður á heimili þeirra, tekið fast um munn hennar og slegið hana ítrekað í andlitið með flötum lófa  með þeim afleiðingum að hún hlaut mar innan á neðri vör og vinstra megin í andliti.

Konan fór fram á fjórar milljónir króna í miskabætur en hlaut 400 þúsund krónur. Hvert barna þeirra fór fram á eina milljón króna í miskabætur en dómurinn taldi 300 þúsund krónur vera hæfilega upphæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert