Tæplega 300 einstaklingar hafa þurft innlögn á Landspítala og 17% þeirra stuðning á gjörgæslu vegna kórónuveirunnar. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur spítalans, sem öllu jafna keyrir á yfir 100% nýtingu rýma, þótt viðmið sambærilegra sjúkrahúsa sé um 85% að sögn Páls Matthíassonar forstjóra spítalans.
Páll segir í pistli sínum á vef Landspítalans að þrátt fyrir þau vonbrigði að ekki verði af rannsókn í samstarfi við Pfizer, sé ekki úr vegi að fagna þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við Covid-19. Engir sjúklingar eru með virkt smit á spítalanum og í eftirliti göngudeildarinnar eru færri en 30 einstaklingar.
Þá hafa rúmlega 40% starfsmenn spítalans lokið bólusetningu.
„Þetta er auðvitað ekkert minna en stórkostlegt, nú þegar ekki einu sinni ár er liðið frá því að fyrsta smit greindist hér á landi. Það er frábær og eftirtektarverður árangur sem við ættum öll að fagna. Á sama tíma verðum við að muna, sérstaklega þegar slakað verður á sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu á næstunni, að persónubundnar sóttvarnir eru lykillinn. Ef þær bregðast þá getur faraldurinn farið á flug, sem við viljum alls ekki að gerist, hvað sem bólusetningum okkar viðkvæmustu hópa líður,“ skrifar Páll.
Páll segir að árið 2020 hafi eins og við var að búast einkennst af kórónuveirufaraldrinum. Í fyrsta sinn í sögu spítalans var spítalinn á neyðarstigi frá 25. október-12. nóvember, en meiri part ársins var síðan óvissustig í gildi.
Páll segir að Covid-19 göngudeild spítalans hafi skipt sköpum í baráttunni við faraldurinn og sé líklega eindæmi á heimsvísu.
„Símtöl Covid-göngudeildarinnar, sem á síðasta ári voru um 35 þúsund, hafa án efa forðað mörgum frá innlögn og alveg ljóst af viðbrögðum þeirra sem þjónustuna hafa þegið að fyrir mörgum var símtalið líflínan í fásinni einangrunarinnar,“ skrifar Páll.