Pakistanski herinn fór í sína aðra flugferð yfir K2 í dag og notaði hitamyndavélar við leitina að John Snorra Sigurjónssyni, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr. Samskonar leitaraðgerð í gær bar ekki tilskilinn árangur.
Þá er verið að skoða gervihnattamyndir frá geimvísindastofnunum Íslands og Síle, að því er Muhammad Ali Randhawa frá innanríkisráðuneyti Pakistans greinir frá á Twitter.
2nd FLIR msission will be carried at K2 Summit today at 1130 hrs. Weather is clear but few clouds.Virtual basecamp carried out the pictures analysis of Spatialdata recvd from Chile&Iceland space agencies. No conclusive evidence yet prayers requested @AbdulKhalidPTI @RNAKOfficial
— Muhammad Ali Randhawa (@RandhawaAli) February 12, 2021
Illa viðrar til leitaraðgerða á K2 og er leit göngumanna og þyrla útilokuð í þessum aðstæðum. Engir fjallgöngumenn eru á fjallinu, utan nokkurra hópa í grunnbúðum K2. Snjóað hefur á fjallinu undanfarið, sem gerir skilyrði enn erfiðari.
Greint var frá því á miðvikudag að stjórnvöld í Pakistan hefðu bannað vetrarferðir á K2 og vitnað var í frétt Washington Post þess efnis. Nú hefur Washington Post uppfært fréttina og vitnar í Karrar Haidri, ritara Alpaklúbbs Pakistans, sem segir hópa göngumanna hafa hætt við ferðir sínar á fjallið vegna slæmra veðurskilurða og vegna þess að leitaraðgerðir að John Snorra og félögum hafi engan árangur borið. Stjórnvöld hafi ekki sett bann við ferðum á fjallið.