Leitað úr lofti með hjálp hitamyndavéla

Engir fjallgöngumenn eru á fjallinu, utan nokkurra hópa í grunnbúðum …
Engir fjallgöngumenn eru á fjallinu, utan nokkurra hópa í grunnbúðum K2. AFP

Pakistanski herinn fór í sína aðra flugferð yfir K2 í dag og notaði hitamyndavélar við leitina að John Snorra Sigurjónssyni, Muhammad Ali Sa­dp­ara og Juan Pablo Mohr. Samskonar leitaraðgerð í gær bar ekki tilskilinn árangur.

Þá er verið að skoða gervihnattamyndir frá geimvísindastofnunum Íslands og Síle, að því er Muhammad Ali Randhawa frá innanríkisráðuneyti Pakistans greinir frá á Twitter.

Illa viðrar til leitaraðgerða á K2 og er leit göngumanna og þyrla útilokuð í þessum aðstæðum. Engir fjallgöngumenn eru á fjallinu, utan nokkurra hópa í grunnbúðum K2. Snjóað hefur á fjallinu undanfarið, sem gerir skilyrði enn erfiðari. 

Hættu sjálfir við ferðir á K2

Greint var frá því á miðvikudag að stjórnvöld í Pakistan hefðu bannað vetrarferðir á K2 og vitnað var í frétt Washington Post þess efnis. Nú hefur Washington Post uppfært fréttina og vitnar í Karrar Haidri, ritara Alpaklúbbs Pakistans, sem segir hópa göngumanna hafa hætt við ferðir sínar á fjallið vegna slæmra veðurskilurða og vegna þess að leitaraðgerðir að John Snorra og félögum hafi engan árangur borið. Stjórnvöld hafi ekki sett bann við ferðum á fjallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert