„Mikilvægur áfangasigur“ en málinu líklega ekki lokið

PIP brjóstpúðar.
PIP brjóstpúðar.

Bótaskylda þýska eftirlitsfyrirtækisins TUV Reihnland gagnvart 203 íslenskum konum sem höfðuðu mál vegna skaðlegra brjóstapúða var viðurkennd fyrir áfrýjunardómstól í Frakklandi í gær. Lögmaður kvennanna segir að um mikilvægan áfangasigur sé að ræða, en að málið eigi þó líklega eftir að fara fyrir Hæstarétt. 

Yfir 400 íslenskar konur fengu svokallaða PIP-púða í brjóstastækkun hér á landi á árunum 2000 til 2010. Síðar kom í ljós að púðarnir láku og voru fullir af iðnaðarsílíkóni sem ekki er ætlað til lækninga. 

„Auðvitað er þetta ótrúlega mikill áfangasigur í þessu máli. Að því sögðu þá geri ég fastlega ráð fyrir því að TUV Reihnland áfrýi til Hæstaréttar Frakklands,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður kvennanna. Hún ítrekar að málið snúist einungis um viðurkenningu á bótaskyldu TUV Reihnland. Það verði síðan lækna að meta fjárhæð bóta í hverju tilfelli fyrir sig.  

Saga segir mikilvægt að vinna málið hjá áfrýjunardómstóli, en í fyrri málsókn vegna púðanna tapaðist málið á því dómstigi. 

„Það skiptir miklu máli að vinna málið fyrir áfrýjunardómstólnum vegna þess að ef TUV áfrýjar, þá getur það ekki unnið málið í Hæstarétti. Eins og gerðist í málsókn númer eitt þá tapaðist málið á öðru dómstigi og hæstirétturinn gat ekki snúið niðurstöðunni við heldur þurfti að senda málið aftur til meðferðar hjá öðrum áfrýjunardómstól,“ segir Saga. 

Hvenær liggur fyrir hvort að málinu verði áfrýjað?

„Ég geri ráð fyrir að við vitum það mjög fljótlega. En það eru miklir hagsmunir í húfi svo það kæmi virkilega á óvart ef þeir gera það ekki,“ segir Saga. 

Saga segir að til skoðunar sé að bæta við nýrri málsókn. 

„Það er til skoðunar núna að bæta við málsókn, en við viljum fyrst fara yfir forsendurnar í þessu máli. Þetta er búið að vera í umræðunni, og það hefði örugglega verið gert fyrr ef ekki væri fyrir Covid-19, en maður vill stíga varlega til jarðar áður en maður gerir fleiri konum það að fara afla gagna,“ segir Saga. 

Í umfjöllun þýska miðilsins DW kemur fram að TUV Rheinland þurfi nú að greiða milljónir evra í bætur til alls 13.000 kvenna í kjölfar dóms áfrýjunardómstólsins í gær. Saga segir að íslensku konurnar séu hluti þessa hóps, en að ekki sé um nýja niðurstöðu að ræða. 

„Þegar málið var á fyrsta dómstigi var TUV dæmt skaðabótaskylt og dæmt að greiða konunum innborgun. Núna þegar málið fór upp var sá dómur staðfestur líka. Þeir eru í raun dæmdir bótaskyldir og staðfest ákvörðun um innborgunarbætur, en svo eiga matsmenn eftir að meta hverja og einustu kröfu. Sú vinna fer fljótlega af stað,“ segir Saga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert