Sérstakir Covid-hundar settir á ís

Lögregluhundar hafa löngum verið nýttir til aðstoðar lögreglu á Íslandi.
Lögregluhundar hafa löngum verið nýttir til aðstoðar lögreglu á Íslandi. mbl.is/Júlíus

Ekkert verður úr því að sinni að hingað til lands komi hundar sem sérhæfðir eru til þess að þefa uppi Covid-smitaða einstaklinga.

Verkefnið var komið langt á veg að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. Fór hann ásamt öðrum fulltrúum lögreglunnar til Bretlands til þess að fræðast um verkefnið í sumar.

„Við áttum í kjölfarið fund með Þórólfi (Guðnasyni) og Víði (Reynissyni) og þeir hvöttu okkur til þess að skoða málið áfram,“ segir Stefán Vagn.

Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurland vestra.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurland vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að búið hafi verið að tryggja hunda og aðstöðu til þess að vista þá og þjálfa.

„Svo var það metið þannig núna fyrir áramót að menn vildu bíða með þetta verkefni. Það var ákvörðun Þórólfs og þeirra sem eru í kringum hann,“ segir Stefán.

Vonbrigði 

Hann segir verkefnið á bið og ekki sé búið að slá það endanlega út af borðinu.

Stefán viðurkennir að ákvörðunin sé vonbrigði. Menn hafi verið spenntir fyrir þessum möguleika. „Reynslan úr öðrum löndum hefur sýnt að það er not af þessum hundum,“ segir Stefán.

„Við horfðum alltaf svo á að þetta gæti verið enn eitt vopnið í vopnabúrið. Þetta er ekki hin endanlega lausn, en þetta gæti verið hluti af henni.“

Hundurinn þjálfaður í annað 

Hann segir að engin ástæða hafi verið gefin fyrir ákvörðuninni. „Við vorum beðnir um að setja þetta á ís sem og við gerðum. Það breytir því ekki að við gætum farið af stað með þetta verkefni hvenær sem er aftur.“

Hann segir að einn þeirra hunda sem ætlaður var til verkefnisins hafi komið til landsins. Ákveðið var að þjálfa hann sem fíkniefnahund. 

Hundar sem sérhæfðir eru til þess að finna Covid-smitaða einstaklinga …
Hundar sem sérhæfðir eru til þess að finna Covid-smitaða einstaklinga með lyktarskyni sínu hafa verið nýttir víða um heim á mannmörgum stöðum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert