Tjón varð á neyðarútgangi verslunar ÁTVR í Hafnarfirði í dag að sögn Sigrúnar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, þegar ekið var inn um útganginn.
Vínbúðin er staðsett við Helluhraun, en ekki urðu slys á fólki.
Sigrún segir að tjónið hafi ekki verið mikið.
„Það varð tjón á þessum neyðarútgangi. Við lokuðum ekki versluninni eða neitt svoleiðis, þetta er inngangur sem er ekki notaður dags daglega sem ekið var á og aðalinngangurinn slapp alveg,“ segir Sigrún.
Sigrún segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi var bílstjóranum veitt aðhlynning áður en kallað var eftir lögreglu.