Tvö ár fyrir innflutning á sterkum verkjalyfjum og heróíni

mbl.is/Eggert

Rúmlega þrítugur karlmaður, Michal Okapiec, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innflutning á heróíni og umtalsverðu magni af sterkum verkjalyfjum, en efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi. Magn heróíns var tvöfalt það magn sem hafði verið gert upptækt hér á landi í tæplega áratug þar á undan. Höfðu efnin verið flutt af öðrum manni, sem hlaut hálfs árs fangelsi í nóvember fyrir sinn þátt, til landsins frá Gdansk í Póllandi.

Auk þessa var maðurinn fundinn sekur um vopnalagabrot með því að hafa í vörslum sínum rafstuðbyssu og útdraganlega kylfu og fyrir peningaþvætti með því að hafa umbreytt ávinningi af sölu og dreifingu efnanna, allt að 9,4 milljónir.

Sagðist ekkert þekkja hinn manninn

Okapiec kom ásamt hinum manninum með flugi til landsins í september á síðasta ári. Voru þeir báðir stöðvaðir af tollvörðum. Greindi hinn maðurinn frá því að þeir hefðu þekkst í 15 ár og væru frá sama bænum í Póllandi. Hann hefði fengið 8.000 evrur fyrir að smygla efnunum. Okapiec sagði hins vega að hann þekkti hinn manninn ekkert.

Við rannsókn málsins voru fjármál Okapiec skoðuð og kom þá í ljós að tekjur hans hefðu á eins og hálfs árs tímabili verið 4,5 milljónir, en útgjöld 16,2 milljónir. Þá hefði hann fengið greiddar peningaupphæðir frá 15 einstaklingum, en tekið saman taldi lögreglan að Okapiec hefði ekki getað skýrt uppruna 9,4 milljóna.

101 skilaboð og höfðu verið með hvorn annan sem tengilið

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekkert bendi til þess að hinn maðurinn, sem dæmdur var sérstaklega, hafi blandað Okapiec í málið án ástæðu. Þeir hafi komið með sömu flugvél til landsins og við skoðun á síma Okapiec sáust 101 skilaboð á milli þeirra, þó að Okapiec hafi verið búinn að eyða hinum sem tengilið úr símaskrá sinni. Meðal skilaboða voru fyrirmæli Okapiec til hins að eyða símanúmeri sínu úr símanum.

Við skoðun á símanum sást einnig að Okapiec hafði leitað upplýsinga um sölu lyfja og hvernig plata ætti tollverði og hvernig væri hægt að plata öryggisskanna á flugvöllum.

Leiddi rannsóknin til þess að mennirnir hefðu einnig komið til landsins saman tvisvar fyrr á árinu. Bendi því allt til þess að tengsl séu á milli þeirra, enda ólíklegt að þeir hafi komið þrisvar með sömu flugvél til landsins fyrir tilviljun á aðeins tveggja mánaða tímabili.

Tvöfalt magn heróíns miðað við 10 ára tímabil

Dómurinn telur sannað að maðurinn hafi staðið fyrir innflutningi efnanna til landsins og tekið er fram að um mikið magn af heróíni sé að ræða, en samtals var lagt hald á 76,66 grömm af efninu. Til samanburðar voru haldlögð 38 grömm af heróíni frá árinu 2011-2019 samanlagt á landinu.

Til viðbótar er hann sakfelldur fyrir innflutning á 276 gr af metaamfetamíni og töluverðu magni af sterkum verkjalyfjum. Þar á meðal voru 1.533 Oxycontin töflur, Ketador vet deifilyf fyrir dýr, Contalgin Uno töflur, Fentanyl plástrar, morfín töflur og Rivotril töflur. Segir í dóminum að alla vega hluti þessara efna sé hættulegur ef þeirra sé ekki neytt samkvæmt læknisráði og í raun geti of stór skammtur þeirra verið banvænn.

Að lokum var hann fundinn sekur um brot á vopnalögum og peningaþvætti samkvæmt ákæru.

Sem fyrr segir hlaut Okapiec 24 mánaða dóm, en þar af er 21 mánuður skilorðsbundinn. Þá þarf hann að greiða 1,7 milljónir í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert