Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér sér stað í janúar árið 2018. Var maðurinn auk þess dæmdur til að greiða konunni 1,8 milljón í miskabætur og málskostnað upp á 2,3 milljónir.
Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir að hafa án samþykkis konunnar klætt hana úr sokkabuxum og nærfötum og haft við hana samræði þar sem hún svaf í sófa í stofu og þannig notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.
Nauðgunin átti sér stað í heimahúsi að loknu þorrablóti. Þar var konan gestkomandi á heimili vinkonu sinnar. Þar var einnig fyrrverandi sambýlismaður vinkonunnar, sem var ákærður í málinu. Þau höfðu fyrr um kvöldið verið að skemmta sér á þorrablóti en farið heim til vinkonunnar eftir blótið þar sem þau drukku áfengi og hlustuðu á tónlist.
Konan vaknaði síðar um morguninn, að hennar sögn, með líðan og minningar um að ákærði hefði klætt hana úr að neðan og haft við hana samfarir. Maðurinn neitaði sök og fyrir Landsrétti sagði hann að um ranghugmyndir væri að ræða hjá sér um minningar að hann hefði girt niður um konuna, en hann hafði vitnað til um þær minningar í héraðsdómi.
Í héraðsdómi kom fram að við ákvörðun refsingar væri horft til þess að um væri að ræða mjög alvarlegt brot sem beindist gegn kynfrelsi ungrar konu, sem var vinkona ákærða, og í aðstæðum þar sem hún átti að vera örugg. Var því um að ræða mikinn trúnaðarbrest. Þetta horfi til refsiþyngingar. Í dómi Landsréttar segir að konan hafi lýst minningarbrotum sínum með skýrum og afgerandi hætti. Hvorki verði af framburði hennar né öðrum gögnum málsins ráðið að hún hafi gefið sér að maðurinn hafi haft samfarir við sig né að ætla megi að hún hafi verið haldin ranghugmyndum um atvikin. Er niðurstaða héraðsdóms í málinu því staðfest.