Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í tveimur fjölbýlishúsum í Hafnarfirði í gær. Fyrri tilkynningin barst síðdegis um að brotist hafi verið inn í sjö geymslur í húsinu. Í síðara tilvikinu var tilkynnt um innbrot í fjórar geymslur. Sú tilkynning barst um klukkan 20 í gærkvöldi.
Í dagbók lögreglu kemur fram að hurðir höfðu verið spenntar upp og brotnar við innbrotin. Ekki vitað hverju var stolið í fyrri tilkynningunni þar sem húsráðendur voru ekki heima en á hinum staðnum er vitað að rafskútu og vefmyndavél hafi verið stolið auk fleiri muna.
Í nótt var síðan tilkynnt um innbrot í skóla í Austurbænum (hverfi 105). Ekki er vitað um tjón né hvort einhverju var stolið þegar dagbók lögreglu var send út snemma í morgun.
Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um mann í annarlegu ástandi sem var búinn að brjóta brunaboða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Maðurinn hafði einnig tæmt úr slökkvitækjum í bílageymslu. Maðurinn var meiddur á hendi og var honum ekið á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar. Hann verður mögulega vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu þegar hann er útskrifaður af bráðamóttökunni.
Lögreglan hafði síðan afskipti af manni vegna vörslu fíkniefna í Garðabæ í gærkvöldi.