Faraldurinn hafði margvísleg áhrif

Færri komu á bráðamóttökur spítalans 2020 en 2019.
Færri komu á bráðamóttökur spítalans 2020 en 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirufaraldurinn hafði margvísleg áhrif á rekstur Landspítalans í fyrra, samkvæmt starfsemisupplýsingum spítalans fyrir desember 2020. Tæplega 300 einstaklingar þurftu innlögn á spítalann í fyrra og 17% þeirra stuðning á gjörgæslu, að því er Páll Matthíasson forstjóri sagði í forstjórapistli.

Þetta hafði gríðarlega mikil áhrif á rekstur spítalans sem alla jafna keyrir á yfir 100% nýtingu rýma.

Meðalfjöldi inniliggjandi sjúklinga á dag árið 2020 var 560 eða 6,8% færri en árið 2019 þegar meðalfjöldinn var 601. Legudagar á legudeildum og bráðadeild í Fossvogi voru 8,4% færri í fyrra en árið 2019. Hlutfall sjúklingadaga í þyngstu hjúkrunarþyngdarflokkunum (IV og V) jókst hins vegar um 12% milli ára, samkvæmt starfsemisupplýsingunum. Komur á allar bráðamóttökur Landspítalans voru 14,6% færri árið 2020 en þær voru 2019. Komum á göngudeildir fækkaði um 10,3% á milli ára og komum á dagdeildir um 8,6%. Þá voru skurðaðgerðir 9,7% færri árið 2020 en þær voru árið 2019.

Rannsóknir á þjónustusviði, það er allar rannsóknir sem gerðar voru á LSH, fyrir sjúklinga LSH og aðra landsmenn auk aðsendra sýna, voru 13% fleiri árið 2020 en þær voru 2019. Fjöldi rannsókna í fyrra var 2.965.667 eða 340.377 fleiri en árið áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert