Gæti orðið mesta rigningin frá því skriður féllu

Margir voru í hættu þegar aurskriðurnar féllu á Seyðisfirði í …
Margir voru í hættu þegar aurskriðurnar féllu á Seyðisfirði í desember sl. og tjónið var gríðarlegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minni úrkomu þarf til, svo að lýst sé yfir óvissustigi á Austurlandi eftir að aurskriður féllu á Austurlandi í desember, heldur en áður. Óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austurlandi tók gildi klukkan 20 í kvöld þar sem spáð er mikilli úrkomu næsta eina og hálfa sólarhringinn. Ef spár ganga eftir gæti hún orðið sú mesta síðan skriður féllu í byggðina á Seyðisfirði í desember.

„Spáð er vax­andi úr­komu í SA-átt sem byrj­ar í kvöld sem rign­ing á lág­lendi en slydda eða snjó­koma í fjöll­um. Það hlýn­ar á morg­un og gæti rignt upp í fjallatoppa í SA 13-18 m/​s. Spáð er upp­safnaðri úr­komu á bil­inu 100-200 mm,“ sagði í til­kynn­ingu frá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra frá því í dag.

Þröskuldurinn neðar

Myndi svona úrkomuspá vanalega kalla á óvissustig eða hafa aurskriðurnar í desember áhrif?

„Þröskuldurinn varðandi skriður er neðar eins og við höfum talað um. Við viljum horfa á það hvernig stöðugleiki hlíðarinnar er eftir því sem við sjáum meiri og meiri úrkomu. Við höfum verið að fá rigningu án þess að það leiði til neinnar hreyfingar núna í nokkur skipti síðan um jól,“ segir Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þetta gæti orðið mesta rigningin til þessa eftir skriður. Þetta er líka talsvert mikil rigning og hlýindi ofan í snjó sem er þarna fyrir austan þannig að við erum líka að setja á þetta óvissustig til að undirstrika að menn þurfa að fara varlega þar sem vitað er að krapaflóð og blaut snjóflóð geta fallið – og við fylgjumst með því,“ bætir hann við.

Tómas gerir ekki ráð fyrir neinum tíðindum eða frekari ráðstöfunum í bili enda á úrkoman ekki að byrja af alvöru fyrr en í fyrramálið. „Við teljum að það sé nóg að setja á óvissustig núna fyrir nóttina og skoða svo hvernig þetta ber upp að landinu í fyrramálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert