Sonur Rikke Pedersen hefur flakkað á milli talmeinafræðinga síðan hann var greindur með alvarlega málþroskaröskun þegar hann var fjögurra ára. Hann er núna orðinn 13 ára og byrjar á næstunni að sækja tíma hjá sjötta fræðingnum.
Sonur hennar er fæddur hér á landi og á íslenskan föður en á erfitt með að tileinka sér íslensku. Þegar hann fékk greininguna á sínum tíma var honum vísað til Talstöðvarinnar í Kópavogi. Þar tók við rúmlega eins árs bið eftir því að komast að vegna langs biðlista. Þegar það loksins gerðist var hann hjá sama talmeinafræðingi í nokkur ár.
Eftir að sonur hennar byrjaði í grunnskóla segir Rikke, sem er dönsk, að Talstöðin hafi nánast viljað ýta honum út úr kerfinu þeirra, enda eigi skólinn að taka yfir þegar börn komast á skólaaldur. Vandamálið, að hennar sögn, var aftur á móti það að í skólanum var aðeins einn talmeinafræðingur að störfum einu sinni í viku og náði hann engan veginn að sinna börnum með alvarlega málþroskaröskun. Því hafi sonur hennar þurft á aukinni aðstoð að halda. Barðist hún því fyrir því að halda honum á stofunni í Kópavogi eins lengi og hún gat.
Þar tókst henni að halda honum þangað til hann var kominn í 5. bekk. Á þeim tímapunkti fann sonurinn sig ekki lengur hjá Talstöðinni vegna þess að honum fannst hann vera orðinn of gamall fyrir stöðina. Allt í kringum hann hafi verið leikskólabörn. Úr varð að hann var skráður á aðra talmeinastöð og þar þurfti hann aftur að vera á biðlista í rúmt ár þar til hann komst inn í ágúst í fyrra.
Eftir að hafa verið í meðferð þar í hálft ár þurfti konan sem hafði aðstoðað hann að hætta vegna ákvæðis í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um að talmeinafræðingar þurfi að loknu meistaranámi að vinna annars staðar í tvö ár áður en þeir fara á samning hjá SÍ.
Fram kemur í ályktun Málefnis – Hagsmunasamtaka í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun, þar sem Rikke er einmitt í stjórn, að þessar aðstæður, eftir að meðferð lýkur og barnið bíður eftir nýjum talmeinafræðingi, geti hægt á framförum og dregið úr líkum á árangursríkri meðferð.
Núna bíður sonur hennar því eftir því að fá aðstoð sjötta talmeinafræðingsins á níu árum. Inni í þessari tölu eru þrír mismunandi fræðingar sem hafa verið að störfum í grunnskólanum síðan skólagangan hófst. Rikke gagnrýnir skólayfirvöld líka því um langt tímabil var enginn talmeinafræðingur að störfum í skólanum.
„Þegar barnið fær svona greiningu í leikskóla er það fyrsta sem þau segja að það sé mikilvægast að grípa inn í mjög snemma. Svo eru viðbrögðin þau að barnið er sett á biðlista í meira en 12 mánuði,“ segir hún og bendir á að langir biðlistar hjá talmeinafræðingum hafi ekkert með snemmtæka íhlutun að gera. Frekar ætti að líta á þetta sem vanrækslu, enda hafi framfarir hans í málþroska orðið hægari fyrir vikið.
Það skjóti skökku við að biðlistar haldi áfram að lengjast á sama tíma og útskrifaðir talmeinafræðingar fái ekki leyfi til að vinna vinnuna sína.
„Kerfið er að brjóta á börnunum okkar og þessu verður að linna. Það eru mannréttindi að fá að tjá sig og þessi börn þurfa aðstoð til að geta lært að nota tungumálið á sama hátt og við hin,“ bætir hún við.
Rikke segir að sonur hennar hafi goldið fyrir slæma stöðu þegar kemur að málefnum talmeinafræðinga á Íslandi.
„Þetta hefur ofboðsleg áhrif. Ímyndaðu þér ef þú hefur alltaf átt að tjá þig á þýsku en ert aldrei búinn að læra hana almennilega og nærð ekki að meðtaka nógu vel hvað er sagt í kringum þig. Þú getur ekki tekið á sama hátt þátt í félagslífinu, þú ert alltaf utan við og líka í skólakennslu. Þú meðtekur ekki skilaboðin í skólanum á sama hátt. Þetta hefur bara áhrif á allt, meðal annars sjálfsálitið,“ greinir hún frá og tekur fram að sonur hennar sé með eðlilega greind geti ekki tjáð sig á sama hátt og aðrir. „Þetta er glatað kerfi,“ segir hún.