Bifreið var ekið á vegrið við Bústaðaveg á níunda tímanum í gærkvöldi og kastaðist bifreiðin við það yfir á rangan vegarhelming og framan á aðra bifreið. Tjónvaldur ók síðan burt af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu.
Hann er grunaður um ölvun við akstur og var að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Sá sem ók bifreiðinni sem varð fyrir tjóninu ætlaði sjálfur að fara á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar vegna eymsla. Bifreið hans er mikið skemmd og var flutt af vettvangi með Króki.
Á ellefta tímanum í gærkvöldi var bifreið bakkað á aðra í Árbænum en tjónvaldur stakk af. Tilkynnt var um málið til lögreglu en sá sem varð fyrir því að bakkað var á bifreið hans elti þann sem stakk af upp í Mosfellsbæ þar sem lögregla handtók tjónvaldinn.
Sá er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Í gærkvöldi var för ökumanns stöðvuð í Kópavoginum en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Hann var jafnframt ekki með ökuskírteini sitt meðferðis.
Á fimmta tímanum í nótt var síðan ökumaður sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu og sölu fíkniefna stöðvaður í Austurbænum (hverfi 104).