Sér hversu margir eru farnir fyrir sjötugt

Slökkviliðsmenn eru sagðir taka inn krabbameinsvaldandi efni í gegnum húðina.
Slökkviliðsmenn eru sagðir taka inn krabbameinsvaldandi efni í gegnum húðina. Eggert Jóhannesson

„Það eru nákvæmlega sömu efni í reyknum hér og er erlendis. Því er ekkert mál að heimfæra þessar rannsóknir á Ísland,“ segir Bjarni Ingimarsson, formaður krabbameinsnefndar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.  

Slökkviliðsmenn hafa barist fyrir því í meira en áratug að almannatryggingar viðurkenni að  starfsstéttinni sé hættara við því að fá krabbamein en öðrum. Innlendar rannsóknir eru ekki til um málið enda þýði slökkviliðsmanna lítið hér á landi. Hins vegar sé það tilfinning manna sem starfa í stéttinni að hátt hlutfall manna undir sjötugu falli frá af völdum krabbameins. 

„Maður sér hversu margir úr hópnum eru farnir úr krabbameini fyrir sjötugt. Eins eru dæmi um unga menn sem hafa fengið krabbamein, en því miður hefur ekki verið haldin skrá yfir þetta til lengri tíma,“ segir Bjarni.

Bjarni Ingimarsson.
Bjarni Ingimarsson. Ljósmynd/Aðsend

Taka inn efni í gegnum húðina 

Bendir hann á að rannsókn sýni að 14-15 krabbameinsvaldandi efni séu í reyk sem slökkviliðsmenn verða fyrir. 

„Við tökum reykinn inn í gegnum húðina í reykköfun. Við þurfum að geta svitnað og við það eykst inntaka reyksins inn í húðina um 200 prósent. Það er mjög erfitt að verja sig nema maður sé í kafaragalla eða einhverju slíku en það gengur ekki upp,“ segir Bjarni. 

Hérlendis nota menn þá aðferð að kveikja eld til æfinga og honum fylgir reykur. Víða um heim eru menn þó hættir því að sögn Bjarna. Menn eru í auknum mæli farnir að nota gas til æfinga. Hér á landi er slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu einmitt að vinna að því að setja upp slíka aðstöðu. 

„Það er vegna þess að menn vilja ekki mynda bruna sem skapar þennan reyk sem getur verið skaðlegur,“ segir Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert