Smátt og smátt er 24 metra trefjaplastbátur að taka á sig mynd í Þorlákshöfn. Trúlega er um stærsta trefjaplastbát að ræða sem smíðaður hefur verið á Íslandi og líklega stærsta fiskibát sem smíðaður hefur verið hérlendis síðustu þrjá áratugi eða svo.
Á margan hátt er horft til framtíðar við hönnun og smíði bátsins, að því er fram kemur í umfjöllun um smíði þessa í Morgunblaðinu í dag. Ingimundur Árnason og fyrirtæki hans, Ausus ehf., standa að smíðinni, en fyrirtækið Dug og Ómar Níelsson annast verkefnastjórn og smíði sem undirverktaki. Báturinn er smíðaður fyrir Manus útgerð, sem Ingimundur á ásamt félögum sínum, og gerir fyrirtækið bátinn Regin ÁR-228 út frá Þorlákshöfn.
Ingimundur segir að stefnt sé að því að sjósetja bátinn í ágústmánuði og setja niður vélar og gera hann kláran fyrir lok ársins. Hann hyggst sjálfur gera bátinn út ásamt félögum sínum, en segist vona að fleiri sýni bátum sem þessum áhuga og að fleiri bátar verði byggðir í skemmunni stóru í Þorlákshöfn. Nokkrir útgerðarmenn hafi litið þar inn og spurst fyrir um smíðina. Ingimundur telur líklegt að fullbúinn kosti báturinn um eða yfir 400 milljónir króna.