Slökkvilið Akureyrar var kallað tvisvar út nú fyrr í dag eftir að reykur kom upp þegar pottar gleymdust á eldavél. Enginn eldur kom upp og engum varð meint af segir varðstjóri slökkviliðsins á Akureyri í samtali við mbl.is.
Útköllin bárust með sjö mínútna millibili en á öðrum staðnum voru það nágrannar sem hringdu eftir hjálp eftir að þeir heyrðu í reykskynjurum í íbúð þar sem enginn var heima.
Reykræsta þurfti á öðrum staðnum en einungis lofta út á hinum. Varðstjóri slökkviliðsins segir reykskemmdir lítils háttar ef einhverjar.