Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki borist fleiri tilkynningar vegna meintra sóttvarnabrota eftir skemmtanahald gærkvöldsins, fyrsta föstudag eftir að opna mátti krár og skemmtistaði eftir fjögurra mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins.
Lögreglan heimsótti um 20 staði í gær og keyrði fram hjá fleirum í eftirliti sínu. Tveir veitingastaðir eru grunaðir um brot á sóttvarnalögum. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn vill hins vegar hrósa veitingamönnum, sem upp til hópa hafi verið með allt sitt á hreinu.
„Við erum alls ekki ósáttir,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is. Þá sé vissulega ekki um stórvægileg sóttvarnabrot í málunum tveimur að ræða. Þau séu nú í rannsókn og það sé ákærusviðs að ákveða hvernig málunum lyktar.
Þá stöðvaði lögreglan útitónleika í miðborginni á ellefta tímanum. Þar segir Ásgeir að um sé að ræða einstakling sem regluglega hefur þurft að hafa afskipti af vegna sams konar mála. „Við erum búin að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum fyrir það sama.“
Lögreglan verður með sams konar eftirlit í kvöld, líkt og allar helgar, að sögn Ásgeirs.