Vonskuveður í vændum

Kort/Veðurstofa Íslands

Febrúar er oft og tíðum sá mánuður ársins sem mest er um óveður á Íslandi. Það sem af er febrúar núna, má segja að veður hafi verið með rólegasta móti segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það hafa ekki verið stormar og lítil úrkoma hefur fallið. Hiti nærri meðallagi sunnanlands en kaldara fyrir norðan og austan. Nú um helgina er útlit fyrir breytt veðurlag. Von er á allhvassri eða hvassri suðaustanátt, slær jafnvel í storm á stöku stað. Það verður úrkomulítið norðanlands, en í öðrum landshlutum má búast við rigningu, jafnvel í talsverðu eða miklu magni á Suðausturlandi og Austfjörðum. Það hlýnar vel upp fyrir frostmark og má búast við hita á bilinu 3 til 8 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll á suðurhelmingi landsins í dag. Um helgina er spáð allhvassri eða hvassri suðaustanátt með rigningu, einkum á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Því má reikna með talsverðri hláku með auknu afrennsli og líkum á vatnavöxtum.

Ekkert ferðaveður er á miðhálendinu og hríðarveður á fjallvegum austanlands á sunnudagsmorgun og hafa verið gefnar út gular viðvaranir.

Á Suðausturlandi tók gul viðvörun gildi klukkan 5 í morgun og gildir hún til miðnættis annað kvöld, sunnudag. „Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s og snarpar vindhviður við fjöll, bæði undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Talsverð eða mikil rigning á laugardag en snjókoma ofan 300 metra á laugardag en ofan 500 metra á sunnudag. Líkur á auknu vatnsrennsli í ám og lækjum.“

Á Austfjörðum tekur gul viðvörun gildi á miðnætti og gildir til klukkan 8 á morgun, sunnudag. „Gengur í austan 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi á fjallvegum, fyrst á sunnanverðum Austfjörðum en norðan til síðar um nóttina. Takmarkað skyggni og léleg akstursskilyrði.“

Ný gul viðvörun tekur þá gildi á Austfjörðum og gildir sú til miðnættis á sunnudag. „Suðaustan- og austanhvassviðri, 13-18 m/s og talsverð eða mikil rigning, einkum neðan 500 m. Aukið afrennsli í ám og lækjum.“
Á miðhálendinu hefur gul viðvörun verið í gildi síðan klukkan 18 í gær og gildir hún til klukkan 10 í fyrramálið, sunnudag. „Suðaustanstormur eða -rok, einkum hlémegin jökla. Mjög slæmt skyggni í snjókomu eða skafrenningi og ekkert ferðaveður.“


Veðurhorfur í dag og næstu daga

Suðaustan og austan 15-23 m/s á sunnanverðu landinu og rigning með köflum. Hægari vindur norðan til og yfirleitt þurrt. Fer að rigna á Austfjörðum í kvöld. Hlýnandi veður, hiti 2 til 7 stig með deginum.

Suðaustan 13-20 á morgun. Talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands, en rigning af og til í öðrum landshlutum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis. Sunnan 8-13 annað kvöld og skúrir. Hiti 3 til 8 stig.

Á sunnudag:
Suðaustan 13-20 m/s. Talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands, en rigning með köflum í öðrum landshlutum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis. Sunnan 5-13 um kvöldið og skúrir, en rigning austast á landinu. Hiti 3 til 8 stig.

Á mánudag:
Sunnan 8-13 og skúrir eða rigning, en bjartviðri norðan- og norðaustanlands. Hiti 2 til 7 stig.

Á þriðjudag:
Austlæg átt 5-13 og rigning með köflum, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:
Breytileg átt og rigning eða slydda í flestum landshlutum, en úrkomuminna síðdegis. Heldur kólnandi.

Á fimmtudag:
Austan- og norðaustanátt og víða dálítil rigning eða slydda. Hiti 1 til 6 stig.

Á föstudag:
Norðaustanátt og lítils háttar él norðanlands, en yfirleitt þurrt syðra. Hiti kringum frostmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert