Víða er allhvöss eða hvöss suðaustan- og austanátt á landinu en sums staðar stormur til fjalla. Talsverð eða mikil rigning er á Suðausturlandi og Austfjörðum en rigning af og til í öðrum landshlutum.
Síðdegis í dag dregur úr vindi og vætu, þó ber að taka fram að áfram mun rigna talsvert austast á landinu fram á nótt að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Óvissustig er í gildi vegna ofanflóðahættu á Austurlandi.
Óvissustig vegna ofanflóðahættu tók gildi á Austurlandi klukkan 20 í gærkvöld vegna mikillar rigningarspár þangað til á morgun. Þar hlýnar í dag og gæti rignt upp í fjallatoppa í SA 13-18 m/s. Spáð er uppsafnaðri úrkomu á bilinu 100-200 mm.
„Talsverður snjór er sums staðar í fjöllum og við þessar aðstæður gætu vot snjóflóð fallið og jafnvel krapaflóð eða skriður þegar líður á veðrið.“
Veðurhorfur í dag og næstu daga.
Suðaustan- og austanátt, víða á bilinu 13-20 m/s. Talsverð eða mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum en rigning af og til í öðrum landshlutum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis. Sunnan 8-15 í kvöld og skúrir en áfram talsverð rigning austast á landinu. Hiti 2 til 8 stig.
Sunnan 8-13 á morgun og skúrir eða rigning, en bjartviðri norðan- og norðaustanlands. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Sunnan 8-13 m/s og skúrir eða rigning en bjartviðri norðan- og norðaustanlands. Hiti 2 til 7 stig.
Á þriðjudag:
Austlæg átt 5-13 m/s og rigning með köflum en þurrt að kalla á norðanverðu landinu fram á kvöld. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag:
Breytileg átt og víða rigning eða slydda en styttir upp á Norður- og Austurlandi síðdegis. Hiti 1 til 6 stig.
Á fimmtudag:
Breytileg átt og líkur á slyddu eða snjókomu norðan- og austanlands en rigningu við ströndina. Úrkomulítið sunnan heiða. Hiti um og yfir frostmarki.
Á föstudag:
Norðaustanátt og víða þurrt veður en dálítil él með norður- og austurströndinni. Frost 0 til 5 stig.
Á laugardag:
Norðlæg átt, þurrt að kalla og vægt frost en skúrir eða él norðaustan- og austanlands með hita kringum frostmark.