Allt í einu voru til milljarðar

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur með meiru.
Þorgrímur Þráinsson rithöfundur með meiru. Árni Sæberg

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur segir liggja í augum uppi að það þurfi sértækar og róttækar aðgerðir til að snúa við þeirri óheillaþróun sem hreyfingarleysi barna og ungmenna sé, auka snemmtæka íhlutun, fyrsta stigs forvarnir og þjálfun. Hann vísar í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, sem hefur sagt að heilsa milljóna barna og unglinga víðs vegar um heiminn sé í hættu vegna þess að þau hreyfi sig ekki nóg. Of miklar kyrrsetur hafi áhrif á þroska heilans, ekki síður en líkamsburði.

„Reynslan sýnir að það hefur nánast aldrei verið til fjármagn hjá hinu opinbera í fyrsta stigs forvarnir en þegar Covid-19 brast á voru til tugir milljarða. Ég ætla ekki að gera lítið úr því hvernig brugðist var við kórónuveirunni en fyrsta stigs forvarnir og snemmtæk íhlutun er hundraða milljarða virði. Heil kynslóð er í húfi! Og sálarheill foreldra og kennara,“ segir Þorgrímur.

Hættum að sjúkdómsvæða

Hann segir okkur þurfa að sinna börnum með sérþarfir undir eins og hætta að sjúkdómavæða samfélagið með því að reyna að leysa vanlíðan með pillunotkun. Lífsstílstengdir sjúkdómar séu 80% af kostnaði „heilbrigðis“-kerfisins. Dagleg kröftug hreyfing, holl næring, góður svefn og félagsleg virkni sé lykill að vellíðan. „Eins og sakir standa eigum við Evrópumet í því að reyna að slá á kvíða barna með pillum. Það er eðlilegt að kvíða fyrir því að skipta um skóla, fara í próf, spila mikilvæga leiki, fara í nýjar aðstæður. Við verðum að takast á við það í stað þess að hopa og loka okkur af.“

Þótt við foreldrar séum helstu áhrifavaldar í lífi barna okkar og berum þar af leiðandi mesta ábyrgð þurfa yfirvöld, að mati Þorgríms, að forgangsraða upp á nýtt og temja sér að ljúka þeim málum sem lagt er af stað með. Yfirvöld þurfi að skapa traust í þeirra garð.

„Fyrir fimmtán árum fór ég fyrir fagráði níu „sérfræðinga“ sem skiluðu skýrslunni Léttara líf – tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Við lögðum sál okkar í verkefnið, í tæp tvö ár, í sjálfboðavinnu, fyrir forsætisráðuneytið, og leituðum ráða hjá yfir fimmtíu öðrum sérfræðingum og stofnunum sem lögðu lóð sitt á vogarskálarnar með góðum tillögum. Ári eftir að við skiluðum skýrslunni óskaði ég eftir fundi með forsætisráðherra og spurði hvað hefði orðið um skýrsluna. Þá spurði hann: „Hafið þið lokið störfum?“ Skýrslan hefur verið í skúffunni síðan.“

Börn þurfa mikla hreyfingu.
Börn þurfa mikla hreyfingu. Ómar Óskarsson


Nokkrum árum seinna setti heilbrigðisráðherra svipaða vinnu af stað sem strandaði á stjórnarslitum, uppgjöf, eins og Þorgrímur kallar það. Litlu síðar skipaði annar forsætisráðherra ráðherranefnd um bætt heilbrigði þjóðarinnar undir forystu Ingu Dóru Sigfúsdóttur sem stóð sig frábærlega, að dómi Þorgríms. „Sú nefnd fór í vaskinn vegna pólitískra deilna en það lá ljóst fyrir í upphafi að ekkert fjármagn yrði sett í aðgerðir! Kallast það sýndarmennska þegar hugur fylgir ekki máli?“

Aðgerðaleysi stjórnvalda

Þorgrími hefur oft misboðið aðgerðaleysi stjórnvalda í forvarnamálum þannig að hann sendi ráðherra skilaboð fyrir nokkrum árum og óskaði eftir því að fá að vera ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í forvarnamálum. „Ég sagðist ekki þurfa neina aðstöðu og að enginn þyrfti að vita að ég væri að hjálpa til. Ég fékk aldrei svar.“

Nánar er rætt við Þorgrím í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og er viðtalið liður í greinaflokki um vanda drengja í skólakerfinu. Í fjórtán ár hefur hann markvisst boðið nemendum í 10. bekk upp á fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu, skólum að kostnaðarlausu. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert