Bjartsýnn á afléttingu á morgun

Frá Seyðisfirði. Þrjú hús yst í bænum voru rýmd í …
Frá Seyðisfirði. Þrjú hús yst í bænum voru rýmd í dag vegna snjóflóðahættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Húsin þrjú sem rýmd voru á Seyðisfirði í kvöld eru á þekktu snjóflóðasvæði yst í bænum. Síðast þurfti að rýma svæðið vegna snjóflóða árið 2018. Þetta segir Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Hann segir að ákvörðun um rýmingu hafi verið tekin vegna mikillar rigningar í dag, sem spár geri ráð fyrir að haldi áfram inn í nóttina ofan í talsverðan snjó. Úrkoma á Seyðisfirði hefur verið um 45 mm það sem af er degi, en gæti náð 70 mm innan nokkurra klukkutíma. Þá hafa snjóflóð fallið utar í firðinum. Enginn snjóflóðavarnargarður er ofan við svæðið.

Spár gera ráð fyrir að það dragi úr úrkomu í nótt, og segist Sveinn bjartsýnn á að ástandið skáni í fyrramálið. „Undir morgun ætti að vera orðið úrkomulítið og þá ætti þessi snjór fljótlega að ná stöðugleika.“ Rýming verður endurmetin í fyrramálið. 

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að vel hafi gengið að rýma húsin þrjú, en sjö íbúar búa í þeim og eru þeir allir komnir með húsaskjól. „Það voru allir vel upplýstir um hvað gæti gerst, þannig að það kom engum á óvart að þetta yrði niðurstaðan,“ segir Kristján. Óvissustigi hafði verið lýst yfir í bænum í gær.

Aurskriður í desember ekki haft áhrif á þessa rýmingu

Ekki eru nema tveir mánuðir liðnir síðan miklar aurskriður féllu á bæinn og höfðu með sér um tíu hús, og þótti mikil mildi að enginn hefði slasast. Var bærinn í kjölfarið rýmdur í heild sinni og þurftu sumir íbúar að verja jólunum að heiman. 

Spurður hvort viðmið um rýmingar hafi breyst í kjölfar aurskriðanna segir Sveinn það óhjákvæmilegt í tilfelli snjóflóða. „Svona atburðir gera menn alltaf viðkvæmari,“ segir Sveinn og bendir á að ákveðið hafi verið að rýma undir varnargarði á Siglufirði þar sem endurmat á virkni snjóflóðavarnargarða standi enn yfir.

Í tilfelli snjóflóðahættunnar nú, sem er í ysta hluta byggðarinnar, eigi það þó ekki við. „Þessi rýming núna er ekkert varkárari en hefði verið fyrir þessa atburði. Þarna eru stórir farvegir, gil hátt ofan í fjalli, þar sem er þekkt að komi stór snjóflóð niður. Þess vegna er þessi ákvörðun tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert