Boða blaðamannafund á morgun

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali. …
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali. Tveggja fyrrnefndu er saknað og auk þess samferðamanns þeirra, Juans Pablo. Ljósmynd/Facebook

Aðstoðarmenn Johns Snorra Sigurjónssonar og tveggja ferðafélaga hans á K2 eru á heimleið. Pakistanski herinn mun þó áfram halda grunnbúðum í fjallinu opnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá talsmanni fjölskyldna mannanna þriggja, Vanessu O'Brien.

Þá boðar hún að mikilvægur blaðamannafundur verði haldinn á morgun og tekið fram að hann tengist sérstaklega Ali Sadpara, ferðafélaga Johns Snorra og þekktasta fjallgöngumanns Pakistans.

Ekkert hefur spurst til þremenninganna, Johns Snorra, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, í níu daga. Mikil leit hefur verið gerð að mönnunum og gervihnattarmyndir, ratsjármyndir og ljósmyndir verið nýttar. Segir að vísbendingum um staðsetningu mannanna hafi verið fylgt, en þær reynst vera svefnpoki, rifin tjöld og dýnur en ekki mennirnir.

Í tilkynningunni er yfirvöldum á Íslandi, í Pakistan og Chile þakkaður stuðningurinn við leitina og tekið fram að aldrei hafi jafn umfangsmikil leit verið gerð að mönnum á K2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert