Brjálað að gera í blómasölu í dag

Blóm seljast vel í dag.
Blóm seljast vel í dag. AFP

„Það er bara röð eftir allri búðinni,“ segir Sigríður I. Gunnarsdóttir, jafnan kölluð Didda, eigandi blómabúðarinnar 18 rauðar rósir í Hamraborg í Kópavogi. Gríðarlegur fjöldi fólks hefur heimsótt búðina það sem af er Valentínusardeginum. 

Segir Sigríður að raunar hafi stöðugur straumur fólks verið frá því í gær. Þá sé eftirspurn eftir blómum langt umfram það sem hún bjóst við. „Þetta fer langt fram úr öllu sem ég bjóst við, sérstaklega af því að þetta er sunnudagur. Svo var umferðin sömuleiðis mjög mikil í gær.“

Aðspurð segir hún að konudagurinn sé stærsti söludagurinn. Hins vegar sæki Valentínusardagurinn á. „Konudagurinn er stærstur og það er stutt á milli þessara daga. Í dag hefur verið alveg endalaus traffík,“ segir Sigríður og bætir við að rauð blóm seljist best. „Það fer mest af rauðum rósum á þessum degi. Það vilja allir rauða litinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert