Öskudagur er á miðvikudag og er boðið upp á aðstoð við að búa til öskupoka á Árbæjarsafni í dag til klukkan 15.
Á öskudaginn klæða börn sig vanalega í búninga og ganga fylktu liði um bæinn í leit að sælgæti í skiptum fyrir söng í anda hrekkjavökuhátíðarinnar. Fæst börn í dag þekkja hins vegar þá hefð að hengja öskupoka aftan á fólk en þeir sem eldri eru muna vel eftir spennunni sem fylgdi því að fara í bæinn í búningi og hengja poka aftan á ókunnuga, helst fullorðna, án þess að þeir yrðu þess varir. Það vakti mikla kátínu allra að sjá grunlaust fólk ganga um bæinn með litríka poka aftan á sér. Þessi hefð er nær alveg horfin en nú gerir Árbæjarsafn tilraun til þess að endurvekja hana með því að bjóða upp á öskupokasmiðju og dálítinn fróðleik um þennan skemmtilega sið segir í tilkynningu. Leiðsögn og hráefni verður á staðnum og þátttaka er ókeypis.
Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um hefðir á öskudaginn en sú venja að hengja öskupoka á fólk finnst aðeins á Íslandi.
„Kannski má rekja upphaf þess til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld, mögulegt er að heimild öld eldri greini frá sama sið. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum: konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Líklegt er að ólík kynjahlutverk og aðgengi að hlutum hafi þar skipt máli, en lykilatriði hjá báðum kynjum var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.
Snemma á 20. öld þróaðist öskupokasiðurinn í þá átt að verða nokkurs konar Valentínusarbréf. Ungar stúlkur sendu ungum piltum sem þeim leist vel á poka til að gefa áhuga sinn til kynna.
Starfsmenn Vísindavefsins muna eftir úr sínu ungdæmi (sem ekki var fyrir svo löngu síðan!) að enn tíðkaðist að hengja öskupoka á fólk og þá var kynjaskiptingin horfin. Tilgáta Vísindavefsins er að breytingar á framleiðslu títuprjóna úti í heimi, svo þeir beygðust ekki jafn auðveldlega, hafi haft varanleg áhrif á pokasiðinn á Íslandi,“ segir á Vísindavef HÍ.