Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær og á landamærunum er beðið niðurstöðu mótefnamælingar hjá einum einstaklingi að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Enginn greindist heldur með kórónuveiruna innanlands á föstudag og í gær beið einn niðurstöðu mótefnamælingar á landamærunum.
Ekki eru birtar tölur á covid.is-vefnum um helgar og segir Jóhann að um bráðabirgðatölur sé að ræða.
Fjórir greindust með smit á fimmtudag og eru þeir allir í sömu fjölskyldu. Allir voru í sóttkví við greiningu en smitin tengjast landamærunum.