Fær endurgreitt 33 þúsund frá Skattinum

Grafín-lakkvarnarmeðferð er ekki „óhjákvæmilegt viðhald“ að mati yfirskattanefndar.
Grafín-lakkvarnarmeðferð er ekki „óhjákvæmilegt viðhald“ að mati yfirskattanefndar. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirskattanefnd hefur úrskurðað að Skattinum beri að endurgreiða manni 32.903 krónur sem hann greiddi í virðisaukaskatt vegna svonefndrar grafínhúðunar á bílnum sínum.

Alþingi samþykkti í fyrra tímabundna endurgreiðslu á virðisaukaskatti af bílaviðgerðum, bílamálun og bílaréttingum með það fyrir augum að örva atvinnulífið á tímum heimsfaraldurs – átak sem nefnist Allir vinna.

Fólk getur því sótt um endurgreiðsluna frá Skattinum eftir að hafa farið með bílinn sinn í viðgerð, og það gerði maðurinn en fékk höfnun á þeim forsendum að grafínhúðun (lakkvarnarmeðferð) félli ekki undir skilyrði laganna til endurgreiðslu.

Ekki óhjákvæmilegt viðvik

Skatturinn hélt því fram að lakkvarnarmeðferðin teldist minni háttar viðhald á bifreiðinni og félli því ekki undir átakið Allir vinna. Vísaði stofnunin til 5. greinar reglugerðar þar sem tekið er fram að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af „reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minni háttar viðhaldi hennar“ en þar undir fellur ýmis þjónusta sem óhjákvæmilega fylgir rekstri bíls, svo sem ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðir, hjólbarðaskipti, smurþjónusta, þrif og bón.

Maðurinn hélt því hins vegar fram að grafínhúðunin, sem hann greiddi 170.000 krónur fyrir, geti varla talist til reglulegrar umhirðu eða minni háttar viðhalds. Meðferðin feli í sér umtalsverða breytingu á ytra byrði bifreiðarinnar og megi frekar líkja við lakkvinnu en bón.

Yfirskattanefnd féllst á málatilbúnað mannsins og sagði að telja yrði að slík yfirborðsmeðferð yrði lögð að jöfnu við almennar lakkviðgerðir bíla en ekki minni háttar viðhald, sem óhjákvæmilega fylgir rekstri bíla.

Var Skattinum því gert að endurgreiða manninum greiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 32.903 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert