Kráareigendur stóðu undir væntingum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Kráar- og veitingastaðaeigendur stóðu sig vel um helgina í sóttvörnum, segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Krár voru opnaðar að nýju síðastliðinn mánudag og var helgin sú fyrsta sem gekk í garð eftir að nýjar sóttvarnareglur tóku gildi.

Krár mega nú vera opnar til klukkan 22 á kvöldin en mega ekki hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir klukkan 21. Hið sama gildir um veitingastaði.

Aðeins voru nokkur undantekningartilvik á veitingastöðum þar sem lögregla beindi vinsamlegum tilmælum til verta um hvað betur mætti fara.

„Menn voru bara ánægðir með það hvernig gekk. Langflestir voru til fyrirmyndar,“ sagði Víðir við mbl.is. 

„Eigendur þessara staða höfðu sagst geta tekið tillit til þeirra reglna sem nú gilda og þeir stóðu langflestir undir væntingum. Aðeins örfáar undantekningar voru á því og þá var tilmælum vinsamlega beint til þeirra sem áttu í hlut um hvað betur mætti fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert