MAX-vélarnar lentar í Keflavík

Vélin Mývatn lenti ásamt annarri MAX-vél skömmu eftir hádegi í …
Vélin Mývatn lenti ásamt annarri MAX-vél skömmu eftir hádegi í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Tvær af fimm Boeing 737 MAX-þotum Icelandair, sem geymdar voru á Spáni, lentu á Keflavíkurflugvelli nú fyrir skömmu. Fyrri vélin, Mývatn, lenti klukkan 13:13 og sú síðari, Búlandstindur, strax í kjölfarið. Vélarnar hafa verið í geymslu á flugvellinum í Lledia á Spáni undanfarin misseri. Blaðamaður mbl.is tók myndina sem fylgir með fréttinni skömmu eftir að vélin lenti.

Vonir standa til að vélarnar verði aftur teknar í rekstur á vormánuðum, en nú munu taka við áframhaldandi uppfærslur á vélunum og þjálfun flugmanna. Til að fljúga flugvélunum heim voru fjórir flugmenn félagsins látnir undirgangast umfangsmikla þjálfun, bæði bóklega og í flughermi.

Sem kunnugt er voru vélar þessarar gerðar kyrrsettar fyrir um tveimur árum í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, þar sem alls 346 fórust. Hið fyrra var 2018 þegar vél Lion Air hrapaði til jarðar í Indónesíu og árið eftir fórst vél Ethiopian Airlines sem var á leiðinni til Nairóbí í Keníu.

Stýrikerfi MAX-vélanna hefur verið endurhannað og aðrar ráðstafanir gerðar og Flugöryggisstofnun Evrópu hefur aflétt kyrrsetningu vélanna. Nokkuð er liðið síðan flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum gáfu Boeing MAX græna ljósið og í ferðum að undanförnu hefur allt gengið vel og ekkert óvænt komið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert