Áfram verður unnið að bólusetningu starfsfólks hjúkrunarheimila með bóluefni Astra-Zeneca í vikunni en óvenjumikið var um aukaverkanir meðal þess í síðustu viku. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að meira hafi verið um aukaverkanir meðal þessa hóps en þau hafi átt von á.
Í vikunni verður því um meiri dreifingu að ræða en í síðustu viku, það er að ekki of margir starfsmenn á sama hjúkrunarheimili séu bólusettir á sama degi. Þetta er fyrri bólusetning en sú síðari er eftir þrjá mánuði þannig að þessi hópur verður ekki fullbólusettur fyrr en í maí.
Þar sem ekki er mælt með bóluefni Astra-Zeneca fyrir 65 ára og eldri er aðeins verið að bólusetja yngri starfsmenn. Jafnframt er bóluefnið ekki notað fyrir þá sem eru á líftæknilyfjum þannig að þessir hópar fá önnur bóluefni, það er Pfizer og Moderna, segir Sigríður Dóra.
Það er aðdáunarvert hvað starfsfólk og hjúkrunarheimilin eru ánægð og þakklát þrátt fyrir þessar aukaverkanir segir Sigríður Dóra í samtali við mbl.is
Hún segir stöðuna í bólusetningum vera ágæta og fari batnandi. Í vikunni verður unnið að því bólusetja forgangshópa með seinni skammtinum af bóluefni Pfizer. Þannig verður klárað að bólusetja íbúa hjúkrunarheimila og sambýla, fólk sem sækir dagdeildir og þá sem njóta heimahjúkrunar segir Sigríður Dóra.
Von er á smáskammti af Moderna bóluefninu í vikunni og er beðið fyrirmæla frá sóttvarnalækni um hvaða hópa eigi að bólusetja næst. Moderna hefur verið notað fyrir framlínustarfsmenn í lögreglu og slökkviliði og enn á eftir að bólusetja einhverja í þessum starfsgreinum.
Alls verða um 2.500 einstaklingar bólusettir í vikunni. Þar af eru rúmlega 1.500 skammtar af bóluefni Pfizer þannig að þeir bætast í hóp þeirra sem eru fullbólusettir. Á föstudag voru það 5.538 einstaklingar.
Búið er að bólusetja alla 90 ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu og að sögn Sigríðar Dóru er staðan svipuð annars staðar á landinu. Ef einhverjir á þeim aldri eru óbólusettir þá snýst það um flutning á bóluefni út á land. Byrjað var að bólusetja 90 ára og eldri, þ.e. fæddir 1931 eða fyrr, á höfuðborgarsvæðinu þann 2. febrúar.
Sigríður Dóra segir að þegar endurbólusetningu aldraðra lýkur verði farið að bólusetja yngri aldurshópa, það er fólk undir níræðu og þar verður hver árgangur tekinn fyrir sig. Þetta verður í mars.
Í þessari viku er farið heim til fólks en annars verður fólk bólusett á Suðurlandsbraut eða þangað til annað kemur í ljós en Sigríður Dóra segir að það hafi gengið mjög vel að bólusetja í Laugardalshöllinni.