Ný stjórn Félags foreldra leikskólabarna

Félagið gætir hagsmuna leikskólabarna og foreldra í Reykjavík.
Félagið gætir hagsmuna leikskólabarna og foreldra í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný stjórn hefur tekið við í Félagi foreldra leikskólabarna í Reykjavík (Samleik-R). Í henni sitja Achola Otieno, Albína Hulda Pálsdóttir, Berglind Anna Aradóttir, Helena Gunnarsdóttir og Helena N. Wolimbwa.

Félagið var stofnað í janúar 2014 með það að markmiði að gæta hagsmuna leikskólabarna og foreldra. Hefur félagið frá stofnun átt áheyrnarfulltrúa á fundum skóla- og frístundaráðs borgarinnar og fulltrúa í nefndum og starfshópum sem tengjast leikskólum borgarinnar.

Gæta þess að stytting vinnuviku komi ekki niður á þjónustu

„Það hafa verið miklar áskoranir í leikskólastarfi í Reykjavík undanfarin misseri, verkfall Eflingarstarfsfólks og COVID-19 sem hefur eðlilega sett mikinn svip á leikskólastarf í borginni,“ er haft eftir Albínu í tilkynningu.

„Nú í upphafi árs mun félagið einnig fylgjast með hvernig styttingu vinnuvikunnar verður háttað í leikskólum í Reykjavík og hvort hún muni koma niður á þjónustunni; hvort sem er með auknu álagi á starfsmenn, skerðingu á faglegu starfi eða að börnin verði oftar send heim vegna manneklu,“ segir hún.

Það eru líka ýmis jákvæð teikn á lofti, t.d. fyrirhuguð fjölgun leikskólaplássa með nýjum leikskóla í Safamýri og stækkunar leikskólans Brákarborgar og með nýjum ungbarnadeildum á leikskólum borgarinnar.

Achola Otieno segir enn fremur áríðandi að fylgja eftir þeim breytingum sem nú eru lagðar til um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá leikskóla og fjölmenningarlegt leikskólastarf. „Að auki er nauðsynlegt að skoða móttöku fjöltyngdra barna og að efla máltöku, fjöltyngi og samskipti foreldra af erlendum uppruna og starfsfólks leikskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert