Ný stjórn hefur tekið við í Félagi foreldra leikskólabarna í Reykjavík (Samleik-R). Í henni sitja Achola Otieno, Albína Hulda Pálsdóttir, Berglind Anna Aradóttir, Helena Gunnarsdóttir og Helena N. Wolimbwa.
Félagið var stofnað í janúar 2014 með það að markmiði að gæta hagsmuna leikskólabarna og foreldra. Hefur félagið frá stofnun átt áheyrnarfulltrúa á fundum skóla- og frístundaráðs borgarinnar og fulltrúa í nefndum og starfshópum sem tengjast leikskólum borgarinnar.
„Það hafa verið miklar áskoranir í leikskólastarfi í Reykjavík undanfarin misseri, verkfall Eflingarstarfsfólks og COVID-19 sem hefur eðlilega sett mikinn svip á leikskólastarf í borginni,“ er haft eftir Albínu í tilkynningu.
„Nú í upphafi árs mun félagið einnig fylgjast með hvernig styttingu vinnuvikunnar verður háttað í leikskólum í Reykjavík og hvort hún muni koma niður á þjónustunni; hvort sem er með auknu álagi á starfsmenn, skerðingu á faglegu starfi eða að börnin verði oftar send heim vegna manneklu,“ segir hún.
Það eru líka ýmis jákvæð teikn á lofti, t.d. fyrirhuguð fjölgun leikskólaplássa með nýjum leikskóla í Safamýri og stækkunar leikskólans Brákarborgar og með nýjum ungbarnadeildum á leikskólum borgarinnar.
Achola Otieno segir enn fremur áríðandi að fylgja eftir þeim breytingum sem nú eru lagðar til um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá leikskóla og fjölmenningarlegt leikskólastarf. „Að auki er nauðsynlegt að skoða móttöku fjöltyngdra barna og að efla máltöku, fjöltyngi og samskipti foreldra af erlendum uppruna og starfsfólks leikskóla.“