Veðurspá lítur betur út fyrir Seyðisfjörð en hún gerði í gær. Munurinn er þó ekki mikill og vel er fylgst með áfram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Austurlandi og Veðurstofu Íslands.
Óvissustig verður áfram í gildi vegna ofanflóðahættu. Mesta úrkoma hingað til hefur mælst á Fáskrúðsfirði, rúmir 25 mm í nótt, rúmlega 20 mm á Eskifirði og í Neskaupstað og um 17 mm á Seyðisfirði en minni úrkoma mælist á nýja úrkomumælinum í Botnum.
Á öllum stöðum eru snjóathugunarmenn að störfum. Fylgst er með gögnum úr GPS-mælum, alstöð og vatnshæðarmælum á Seyðisfirði ásamt veður- og snjómælum.