Vegurinn er lokaður frá Ketilási að Siglufirði vegna snjóflóðahættu en snjóflóð féll milli Strákaganga og Siglufjarðar.
Vetrarfærð er um norðanvert landið, þó aðallega á fjallvegum en víða orðið greiðfært um landið sunnanvert. Reikna má með snörpum vindhviðum við fjöll á Suður- og Suðausturlandi í dag segir á vef Vegagerðarinnar.
Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður. Á Norðurlandi er greiðfært að mestu á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Ófært er á Víkurskarði. Óvissustig er vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla. Þungfært á Hófaskarði. Snjóþekja eða hálka og skafrenningur er inn til landsins á Norðausturlandi en hálka eða hálkublettir með ströndinni.
Ófært er á Fjarðarheiði og þungfært á Vatnsskarði eystra. Krapi er á Fagradal en greiðfært með ströndinni. Hreindýrahjarðir eru nú víða, m.a. í nágrenni álversins á Reyðarfirði, á Fagradal og á Jökuldal. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát á þessum svæðum.
Krapi eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Suðausturlandi, þó er greiðfært á milli Klausturs og Skaftafells. Hreindýrahjörð hefur sést á Breiðamerkursandi og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát á þessu svæði. Krapi er á Mýrdalssandi og við Vík.