Þorrinn blæs lífi í íslenska „Glasið“

Nemendur á víkingalínunni í Lýðháskólanum í Nordfjordeid í Vestland spila …
Nemendur á víkingalínunni í Lýðháskólanum í Nordfjordeid í Vestland spila Ragnarok – Gudenes skjebne, hina norsku útgáfu borðspilsins. „Þau halda á spilinu, eru ekki að spila í snjallsíma,“ svarar Örn spurningu blaðamanns um hvort allir væru bara í símanum. „Við erum ekki komin svo langt að setja spilið í app. Enn sem komið er viljum við að það sé spilað upp á gamla mátann. Í hópi eins og á myndinni kemur oft upp umræða um spilið og verur goðafræðinnar. Það þróast oft út í skemmtilegt spjall. Þá læra þeir sem spila enn meira um þessi fræði. Og þá er líka tilganginum náð fyrir spilið sem skemmtimenntunarspil.“ Ljósmynd/Aðsend

„Kórónuveirufaraldurinn hefur vissulega sett strik í reikninginn hjá okkur, ferðamannaiðnaðurinn hefur hrunið og söfn og verslanir lokað dyrum sínum,“ segir Örn Þor­varðar­son Ed­vardsen, fram­kvæmda­stjóri og einn eig­enda Dwarfware, fyrirtækis sem vinn­ur með vör­ur tengdar vík­inga­tím­an­um, nor­rænni menn­ingu og nor­rænni goðafræði.

Örn er búsettur í Fredrikstad í Noregi ásamt íslenskri fjölskyldu sinni og sagði mbl.is frá starfsemi sinni í fyrrasumar sem hann rekur ásamt Reyni A. Óskarsyni hugmyndasmið fyrirtækisins, sem svo er réttilega stafsettur en Reynir kennir sig til móður sinnar, Óskar. Vöruhönnuður Dwarfware er Hrafnkell Birgisson.

Eins og fram kom í fyrra spjalli við Örn var það borðspil Reynis, Ragnarök – Örlög goðanna, frá 2017 sem varð kveikjan að samstarfi þeirra félaga og vörulínu sem síðan hefur vaxið fiskur um hrygg, en þar er um að ræða drykkjarílát, meðal annars glerhorn, með áletruðum erindum úr Hávamálum á íslensku og í þýðingu á ensku sem Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði útvegaði.

Í tilefni þorrans kynntu þeir félagar nýja dvergasmíð sem þeir kalla einfaldlega „Glasið“ og tileinkað er Þorra, syni Snæs konungs, sem segir af í Fornaldarsögum Norðurlanda. Í kaflanum Hversu Noregr byggðist, sem finna má í II. bindi útgáfu Guðna Jónssonar frá 1950, segir af upphafi þess siðar sem Íslendingar stunda enn í svartasta skammdeginu: „Hann hafði blót á hverju ári at miðjum vetri; þat kölluðu þeir Þorrablót. Af því tók mánaðrinn heiti.“

Segir Örn að með þessum nýjasta smíðisgrip hafi Hrafnkatli hönnuði tekist að skapa hvort tveggja nýjung og sérstöðu, en glasið er handgert í Póllandi og vísar til drykkjarhorna fornmanna. Hrafnkell vann mánuðum saman með glerblásurum í Krosno þar til þeim tókst að framkalla sérstaka lögun glassins án nokkurra sýnilegra spora frá samskeytum framleiðslumótanna.

„Glasið“ svokallaða sem Dwarfware sendi frá sér í tilefni þorrans. …
„Glasið“ svokallaða sem Dwarfware sendi frá sér í tilefni þorrans. Pólskir glerblásarar í Krosno náðu að framkalla hina sveigðu og samskeytalausu lögun glassins, vísun í drykkjarhorn fornmanna, en Hrafnkell hönnuður vann sleitulaust með þeim við að ná gripnum eins og lagt var upp með. Ljósmynd/Aðsend

„Hrafnkell segir mér að hönnunin á þeim vörum sem við erum að vinna að sé engu lík,“ segir Örn frá. „Í Bandaríkjunum hófst sala á glösum á tveimur stöðum fyrir jól. Østfoldmuseet í Sarpsborg er með glösin í sölu í netverslun sinni þar sem allar safnbúðir eru lokaðar. Fleiri aðilar erlendis selja borðspilin enda eru þau eldri vara sem er betur kynnt og við erum enn þá að kynna,“ segir hann enn fremur.

Fátt er svo með öllu illt

Dwarfware selji enska útgáfu borðspilsins til Bandaríkjanna, Englands, Svíþjóðar og Finnlands auk þess sem Örn vinni nú að kynningu á nýrri norskri útgáfu fyrir Noregsmarkað og í Danmörku sé dönsk og ensk útgáfa til sölu hjá endursöluaðilum fyrirtækisins þar.

„Þannig að þrátt fyrir Covid-19 erum við að gera heilmikið að mínu áliti en við finnum auðvitað fyrir því að allt er í hægagangi eins og er,“ segir framkvæmdastjórinn. Staðan sé þó ekki með öllu grábölvuð.

Hrafnkell Birgisson, vöruhönnuður Dwarfware. „Þó að kveikjan að glasinu liggi …
Hrafnkell Birgisson, vöruhönnuður Dwarfware. „Þó að kveikjan að glasinu liggi í drykkjarhornunum velti ég strax fyrir mér í upphafi hvernig mætti yfirfæra það í einfalt glerform sem væri um leið nýjung og öðruvísi,“ skýrir hann hugmyndavinnu sína og segir enn fremur að ætlunarverkið hefði ekki heppnast án aðkomu glerblásaranna pólsku. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur gefið mér tíma til að einblína á Dwarfware og vinna þannig grunnvinnuna þannig að þótt söfn séu til dæmis víða lokuð eru starfsmenn þeirra við störf heima hjá sér og fá kynningarefni frá mér. Svo má ekki gleyma því að netverslun færist nú í vöxt í þessu ástandi og við höfum uppfært heimasíðu fyrirtækisins með tilliti til þess. Hún er reyndar öll á ensku enda erum við að mestu leyti að vinna á erlendum mörkuðum.“

Hrafnkell vöruhönnuður lýkur miklu lofsorði á pólsku glerblásarana og kveður framleiðslu nýja glassins ekki hafa verið mögulega í þeirri mynd sem hann sá fyrir sér án handbragðs þeirra.

Þó að kveikjan að glasinu liggi í drykkjarhornunum velti ég strax fyrir mér í upphafi hvernig mætti yfirfæra það í einfalt glerform sem væri um leið nýjung og öðruvísi,“ útskýrir Hrafnkell. „Mig langaði að hanna lífrænt ósamhverft form sem bæði væri þægilegt að halda á en væri einnig raunhæft til framleiðslu í einhverju upplagi. Glasið hefði ekki orðið til í þessari mynd án snilligáfu og reynslu glerblásaranna,“ segir hann.

Þýsk útgáfa Ragnaraka í bígerð

Um þessar mundir vinnur Hrafnkell að hönnun á hnífapörum sem þeir félagar áætla að komi á markað á næsta ári en í haust er væntanlegt matarstellið Afterlife með myndum af gripum sem fundist hafa í víkingagröfum og höfðu þýðingu og tilfinningalegt gildi fyrir þá sem þar voru lagðir til hinstu hvílu.

Reynir A. Óskarson er höfundur borðspilsins sem leit dagsins ljós …
Reynir A. Óskarson er höfundur borðspilsins sem leit dagsins ljós árið 2017 og kemur nú æ fleiri þjóðum fyrir sjónir eftir því sem þýðingum vindur fram. Örn segir þá Reyni velja þýðendur af kostgæfni þar sem ekki sé allra að þýða texta spilsins, þýðendur þurfi að hafa yfirgripsmikla þekkingu á norrænni goðafræði, enda vits þörf þeim er víða ratar, það segir jú í Hávamálum. Ljósmynd/Aðsend

Enn einn áfangann í þessari útrás norrænna víkinga á kórónutímum, hvort sem núlifandi eru eða löngu horfnir í kuml sín, segir Örn að lokum vera þýska útgáfu borðspilsins Ragnaraka, sem að hans sögn samtvinnar skemmtun og menntun. „Það kemur út núna á vormánuðum. Við fáum af og til fyrirspurnir um útgáfu á nýjum tungumálum en förum okkur hægt þar, því spilið þarf að vera þýtt af kunnáttuaðila í norrænni goðafræði og það er ekki hvaða þýðandi sem er sem getur unnið þessar þýðingar.

Þeir sem hafa þýtt spilin fyrir okkur hafa allir mikla þekkingu á norrænni goðafræði. Til framtíðar séð er öruggt að spilið á eftir að koma út á fleiri tungumálum,“ segir Örn Þorvarðarson Edvardsen, framkvæmdastjóri norræna goðsagnafyrirtækisins Dwarfware í Fredrikstad í Noregi. Hneit þar.

Hér má skoða heimasíðu Dwarfware

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert