5,6 skammtar á hverja 100 Íslendinga

Frá fyrstu bólusetningu starfsfólks Landspítala. Bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks og annars starfsfólks …
Frá fyrstu bólusetningu starfsfólks Landspítala. Bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks og annars starfsfólks sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa Landspítala og sambærilegum deildum Sjúkrahússins á Akureyri er lokið. mbl.is/Arnþór

Ísland er í sextánda sæti á heimsvísu hvað varðar bóluefnaskammta sem gefnir hafa verið á hverja hundrað íbúa. Athygli vekur að Evrópusambandslönd eru misvel stödd í þessum efnum og hafa hafið eða lokið bólusetningu hjá 1,1% til 7,2% þjóða sinna. Ísland er í samfloti við Evrópusambandið (ESB) hvað bóluefnasamninga varðar.

Bólusetning er hafin hjá 8.330 Íslendingum og hafa 5.757 fengið fulla bólusetningu. Til þess að fá fulla bólusetningu þurfa einstaklingar tvo skammta af bóluefni. Því eru 14.087 manns hérlendis nú annaðhvort fullbólusettir eða hafa fengið annan skammt bóluefnisins eða 4% Íslendinga. Alls hafa 19.844 bóluefnaskammtar verið gefnir hérlendis.

44% Ísraela bólusettir

Þar sem Íslendingar eru tæplega 357.000 talsins eru skammtarnir á hverja 100 því 5,6. Hafa ber í huga að hérlendis er ekki stefnt á að bólusetja börn sem fædd eru 2006 og síðar nema þau séu með undirliggjandi langvinna sjúkdóma.

Á lista New York Times yfir skammta sem hvert land hefur gefið kemur fram að Ísrael er langbest statt í þessum efnum með 72,5 skammta af bóluefni á hverja 100 íbúa en þar hafa 44% þjóðarinnar fengið einn eða tvo skammta.

Seychelles-eyjar í Austur-Afríku eru næstbest staddar en þar hafa 53,6 skammtar verið gefnir á hverja 100 íbúa. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru í þriðja sæti, Bretland í því fjórða og Bandaríkin og Barein deila því fimmta.

Frá bólusetningu í Laugardalshöll. Þar var bólusetningarmiðstöð opnuð sl. miðvikudag, …
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. Þar var bólusetningarmiðstöð opnuð sl. miðvikudag, daginn eftir að Íslendingar fengu fregnir af því að líklega yrði ekkert af rannsóknarsamningi við Pfizer. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Malta best stödd af Evrópusambandsþjóðum

Efsta Evrópusambandsþjóðin á listanum er Malta en hún er í áttunda sæti. Þar hafa 10,4 skammtar verið gefnir á hverja 100 íbúa, tæplega helmingi fleiri skammtar en hér á landi. Bólusetningu er lokið eða hún hafin hjá 7,2% þjóðarinnar. Danmörk er næst í röðinni af Evrópusambandsþjóðum en þar hafa verið gefnir 6,9 skammtar á hverja 100 íbúa. Hlutfall þeirra sem hafa hafið bólusetningu eða lokið henni er þó hið sama og hérlendis eða 4%.

Lettland er það Evrópusambandsland sem er neðst á lista New York Times yfir bólusettar þjóðir. Þar hafa einungis 1,9 bóluefnaskammtar verið gefnir á hverja 100 íbúa og rétt rúmlega prósent þjóðarinnar hlotið bólusetningu. Önnur Evrópusambandslönd sem eru neðarlega á lista eru Holland, Lúxemborg, Austurríki og Króatía.

Ekkert hefur verið gefið út um það hvenær fólk í …
Ekkert hefur verið gefið út um það hvenær fólk í forgangshópum sem bólusetning er ekki hafin hjá megi vænta bólusetningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danir setja fram skýra sviðsmynd, annað en Íslendingar

Eins og áður segir eru Ísland og Danmörk á svipuðum stað hvað bólusetningu varðar þótt Danir hafi gefið aðeins fleiri skammta á hverja 100 íbúa. En Danir hafa aftur á móti sett fram töluvert skýrari sviðsmynd fyrir borgara sína en Íslendingar.

Þar í landi á bólusetningu að ljúka fyrir 27. júní næstkomandi og hefur heilbrigðisráðuneyti landsins gefið út upplýsingar um það hvenær hver þjóðfélagshópur má búast við því að geta óskað bólusetningar.

Þannig lauk bólusetningu þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum í sjöttu viku þessa árs, bólusetningu 65 ára og eldri sem nýta sér ýmsa þjónustu lýkur í tíundu viku, bólusetningu þeirra sem eru 85 ára og eldri mun ljúka í elleftu viku ársins, bólusetningu fólks með undirliggjandi sjúkdóma lýkur í þrettándu viku ársins o.s.frv. Bólusetning þeirra sem ekki falla í neina forgangshópa á að hefjast í átjándu viku ársins, þ.e. í byrjun maí og ljúka í 25. viku ársins, þ.e. fyrir 27. júní.

Sótt­varna­lækn­ir vinn­ur að gerð bólu­setn­ing­ar­da­ga­tals á grund­velli fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­inga um af­hend­ingu bólu­efna á næstu mánuðum. Þar verða birt­ar upp­lýs­ing­ar um for­gangs­hópa og hvenær ein­stak­ling­ar í hverj­um hópi geta vænst þess að fá boð um bólu­setn­ingu. Þess­um upp­lýs­ing­um er fyrst og fremst ætlað að veita fólki gróf­ar upp­lýs­ing­ar um fram­vindu bólu­setn­inga gegn Covid-19 hér á landi.

Efsta Evrópusambandsþjóðin á listanum er Malta en hún er í …
Efsta Evrópusambandsþjóðin á listanum er Malta en hún er í áttunda sæti. Þar hafa 10,4 skammtar verið gefnir á hverja 100 íbúa, tæplega helmingi fleiri skammtar en hér á landi. AFP

Ekki vitað hvenær bólusetningu lýkur

Hérlendis er afhendingaráætlun bóluefna einungis til staðar út marsmánuð. Bólusetningu er lokið hjá flestum íbúum hjúkrunar- og dvalarheimila og ýmsum framlínustarfsmönnum og er bólusetning aldraðra hafin, sem og bólusetning starfsfólks hjúkrunarheimila.

Gera má ráð fyr­ir að hægt verði að bólu­setja tæp­lega 190.000 ein­stak­linga hér á landi fyr­ir lok júní næst­kom­andi með bólu­efn­um Pfizer, AstraZeneca og Moderna sem öll eru með markaðsleyfi og kom­in í notk­un hér á landi.

Ekkert hefur verið gefið út um það hvenær fólk í forgangshópum sem bólusetning er ekki hafin hjá megi vænta bólusetningar. Þessir hópar eru t.d. einstaklingar með langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi, starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu.

Þá eru þeir sem ekki falla í forgangshópa sannarlega engu nær um það hvenær þeir megi vænta bólusetningar og hvenær þeir megi búast við því að henni ljúki.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu um bólusetningar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert