Á puttanum en átti að vera í sóttkví

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi hafði afskipti af erlendum ferðamanni í vikunni þar sem hann var að ferðast austur í umdæmi lögreglunnar á puttanum. Átti ferðamaðurinn að vera í sóttkví og var hann sóttur af lögreglunni og fluttur í sóttvarnahús í Reykjavík. Var ferðamanninum jafnframt gert að greiða sekt vegna brots síns. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt lögreglunnar á Suðurlandi um verkefni liðinnar viku.

Þá voru 19 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Hraðast ók ökumaður á nítjánda aldursári, en hann var á 134 km/klst hraða á Eyrarbakkavegi þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Var hann sektaður um 120 þúsund krónur og fékk tvo punkta í ökuferilsskrá sína.

Þá var ökumaður flutningabíls kærður fyrir að flytja of þungan farm um Suðurlandsveg við Hellu og má hann búast við sekt vegna málsins. Bendir lögreglan á að mikilvægt sé að fylgjast með breytingum á gildandi þungatakmörkunum á vegum þegar miklar sveiflur eru úr frosti í hita eða öfugt og líkur á tjóni á vegum miklar.

Lögreglan hafði einnig afskipti af ökumanni lítillar fólksbifreiðar sem ekið var á Selfossi í vikunni. Var munstur á þremur af fjórum hjólbörðum bifreiðarinnar slitið upp og við blasti sléttur slitflötur. Segir í færslu lögreglunnar að það eigi betur heima á formúluökutæki á þurrum sumardegi en í hálku að vetri til á Selfossi.

Átta ökumenn voru einnig kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar, en 40 þúsund krónu sekt er við slíku broti.

Þá er enn ófeðraður timburskúr sem féll af flutningabíl/vagni á Suðurstrandarvegi að kvöldi 8. febrúar, en lögreglan biður þá sem geta gefið upplýsingar um skúrinn að hafa samband.

Lögreglan hafði á sunnudaginn afskipti af sex börnum á fjórtánda aldursári í Krónunni á Selfossi, en þau voru staðin að búðarhnupli. Voru foreldrar barnanna og barnavernd boðuð á lögreglustöðina þar sem greitt var úr málunum. Nam andvirði þýfisins tugum þúsunda.

Ferðamaðurinn var fluttur í sóttvarnahús í Reykjavík eftir að málið …
Ferðamaðurinn var fluttur í sóttvarnahús í Reykjavík eftir að málið komst upp.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert