Aurskriða féll í gærkvöldi við bæinn Hof í Öræfum og endaði hún við snúrustaurinn við bæinn, aðeins nokkra metra frá íbúðarhúsinu. Mikið var um stóra steina og grjóthnullunga í skriðunni auk þess sem birkitré, sem stóðu í litlum birkiskógi fyrir ofan húsið, voru mörg hver rifin upp með rótum.
Á bænum búa þau Örn Bergsson og Brynja Kristjánsdóttir. Örn segir í samtali við mbl.is að skriðan hafi komið úr Hofsfjallinu fyrir ofan bæinn og fallið niður Litlahvamm. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem flóð kemur niður hlíðina, en Örn segir að á milli 1940 og 1950 hafi stórt aurflóð komið niður hana og endað á gömlum torfhúsum sem voru notuð undir fé og hesta. Þá hafi síðan reglulega komið minni spýjur þarna niður.
Vegna þessa hafði verið gerður farvegur fyrir flóðið með því að ryðja upp varnargarði. Örn segir að farvegurinn hafi alveg fyllst af aur og krapa og eitthvað hafi farið yfir garðinn. Flóðið hafi svo endað nokkra metra frá íbúðarhúsinu. Flóðið var nokkuð stórt að sögn Arnar og um 100 metra breitt þar sem það breiddi úr sér neðst.
„Maður veit um söguna, þannig að maður er alltaf á varðbergi þegar mikill snjór er og það gerir hláku,“ segir Örn. Hann segir að nú þurfi að grafa upp úr farveginum til að koma upp vörnum fyrir bæinn á ný, en hann telur að hættan sé liðin hjá í þetta skiptið.
Brynja segir að flóðið hafi fallið um klukkan sex í gærkvöldi og að það hafi loks endað við snúrustaurinn í garðinum við húsið. Þau hafi í kjölfarið ákveðið að gista ekki heima í nótt. Hún segir að auk grjóthnullunga hafi í flóðinu verið tré sem höfðu rifnað upp með rótum. Meðfylgjandi myndir tók Brynja í gær af ummerkjunum.
Fyrir nokkrum áratugum var birkiskógi sáð fyrir ofan bæinn, en Brynja segir ljóst að trén hafi að einhverju leyti náð að hemja skriðuna. Hún vill þó ekki segja til um hvort skógurinn hafi haft úrslitaáhrif um hvort skriðan stoppaði áður en hún fór á íbúðarhúsið.