Ekki allir á krabbameinsdeild fengið bólusetningu

Óánægja er meðal starfsmanna krabbameinsdeildar um hvernig staðið hefur verið …
Óánægja er meðal starfsmanna krabbameinsdeildar um hvernig staðið hefur verið að bólusetningu þeirra. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óánægju gætir meðal starfsmanna krabbameinsdeildar Landspítalans, að því er heimildir mbl.is herma, vegna þess að sumir starfsmenn deildarinnar hafa fengið bólusetningu gegn kórónuveirunni en aðrir ekki. 

Formaður Félags íslenskra krabbameinslækna, Gunnar Bjarni Ragnarsson, segir að krabbameinsdeild Landspítalans, eins og margar sérdeildir spítalans, séu mjög viðkvæmar fyrir brottfalli úr mönnun. Því hefði verið óskandi að starfsmenn þessara deilda væru allir nú þegar bólusettir gegn kórónuveirunni. Það væri til þess fallið að viðhalda þjónustustigi spítalans og sefa áhyggjur sjúklinga.

Gunnar vildi ekki tjá sig um óánægju á meðal starfsmanna á krabbameinsdeild en ítrekar að óskandi væri að allir læknar og hjúkrunarfræðingar á krabbameinsdeild svo og á öðrum sérhæfðum deildum spítalans þar sem starfsemin þyldi illa fjarvistir starfsfólks, yrðu bólusettir sem fyrst.

Hann segist jafnframt skilja að ekki væri einfalt mál fyrir stjórnendur Landspítalans að forgangsraða starfsfólki hvað það varðar, þegar bóluefni væru af skornum skammt.

Starfsfólk bíður bólusetningar

„Ég skil áhyggjur fólks og kannski stundum pirring þegar þeirra upplifun væri sú að ekki sætu allir við sama borð hvað varðar bólusetningar en það er náttúrulega erfitt að eiga við þegar um væri að ræða  takmarkaða auðlind og auðvitað væri óskandi að allur hópurinn yrði bólusettur sem fyrst. Það á til dæmis við um starfsfólk á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinsdeildar sem er eina deild landspítalans sem veitir krabbameinslyfjameðferð, þar bíður starfsfólk bólusetningar og auðvitað hefðum við viljað að það gerðist sem fyrst,“ segir Gunnar við mbl.is.

Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir á krabbameinsdeild Landspítalans og formaður félags …
Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir á krabbameinsdeild Landspítalans og formaður félags íslenskra krabbameinslækna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Krabbameinssjúklingar mögulega ekki í neinum forgangshópi

Undir forgangshóp númer sjö, samkvæmt reglugerð sóttvarnalæknis um forgangshópa í bólusetningar gegn kórónuveirunni, falla einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi. Innan þess hóps verður forgangsraðað með tilliti til eigin áhættu einstaklings, yfirstandandi meðferðar sem truflar ónæmissvar, yfirvofandi meðferðar sem dregur úr áhrifum bólusetningar og fleiri þátta, eins og segir á vef landlæknis, covid.is.

Spurður út í það hvort krabbameinssjúkir falli undir þann forgangshóp eða þá forgangshóp 10, sem allir landsmenn falla undir, segist Gunnar ekki geta svarað því. Það sé frekar spurning fyrir sóttvarnayfirvöld að svara.

Hann segir þó að vegna framfara í krabbameinsmeðferð síðustu ár séu lyfjameðferðir stöðugt að batna  og geislameðferð markvissari og því meðferðin síður ónæmisbælandi. Þannig séu þiggjendur krabbameinsmeðferðar í dag oft betur í stakk búnir til þess að takast á við sýkingar,ef borið væri saman við ástandið fyrir nokkrum árum síðan.

Krabbameinssjúkklingar betur varðir en áður

„Fleiri og fleiri krabbameinssjúklingar í dag eru í langtímameðferð og það er afleiðing tveggja þátta; þjóðin er að eldast og því fleiri sem greinast með krabbamein og síðan hafa meðferðir við krabbameini orðið betri. Þannig eru fleiri sem ná góðum árangri í krabbameinsmeðferð, fleiri upplifa langtímasvörun, jafnvel lækningu, við meðferðum sínum og geta jafnvel lifað með krabbameini lengi þótt þeir séu í krabbameinslyfjameðferð.

Það er líka sammerkt í þessum nýju og betri meðferðum að hún er í heildina séð minna ónæmisbælandi og má kannski segja að áhætta þessa hóps sé minni en áður var. Þannig þegar hópurinn er stærri og þú ert með takmarkaða auðlind eins og bóluefni þá er skiljanlegt að taka verði ákvarðanir í ljósi þess og við í stjórn félags krabbameinslækna höfum ekki eitthvað út á þetta að setja.

Ég treysti sóttvarnayfirvöldum og landlæknisembættinu til þess að meta þetta allt saman rétt og geri ráð fyrir að eitthvað samráð hafi verið haft við krabbameinslækna og/eða fylgt reynslu annarra þjóða og ráðleggingum alþjóðlegra stofnana og fagfélaga, þó ég viti ekki hvernig því var háttað hér.

Heilbrigðisyfirvöld hafa verið mjög farsæl í sínum viðbrögðum sem kemur best fram í góðum árangri Íslendinga í baráttunni við farsóttina. Því veit ég að þau hafa tekið ákvarðanir út frá því sem þau teldu að þjónaði hag heildarinnar best svo og einstakra sjúklingahópa. Þau hafa sýnt kjark og dug til að taka erfiðar og umdeildar ákvarðanir og við höfum borið gæfu til að að stjórnvöld hafa fylgt þeim nær undantekningalaust,“ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert