Lögreglan hefur fengið töluvert af upplýsingum og er búin að ræða við þó nokkurn fjölda fólks vegna skotárásar í Rauðagerði á laugardagskvöld þar sem albönskum manni var ráðinn bani fyrir utan heimili sitt.
Átökin eru sögð vera um yfirráð yfir fíkniefnamarkaði í undirheimum um þessar mundir, vegna valdatóms sem myndaðist þegar stórtækur íslenskur fíkniefnasali tók að draga sig í hlé fyrir skömmu.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að erfitt sé að segja til um einhverjar hefndaraðgerðir vegna árásarinnar á laugardagskvöld.
Hann segir lögreglu kanna hvort árásin tengist átökum í undirheimum en getur ekki svarað því hversu margir voru í húsinu við Rauðagerði á laugardagskvöldið.
Erlendur maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 19. febrúar en Margeir segir enn fremur til skoðunar hvort fleiri séu grunaðir um eitthvað saknæmt.