Kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ákvað á fundi sínum um síðustu helgi að framboðsfrestur til þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu standi til fimmtudags 8. apríl næstkomandi kl. 15:30. Prófkjörið fer fram laugardaginn 29. maí 2021.
Skal framboð vera bundið við flokksfélaga, enda liggi fyrir skriflegt samþykki um að viðkomandi gefi kost á sér. Auk þess þurfa að liggja fyrir skrifleg meðmæli 20-40 flokksfélaga sem búsettir eru í kjördæminu, segir í tilkynningu.
Eyðublöð fyrir framboð, skipulags- og prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins auk nánari upplýsinga um prófkjörið er hægt að nálgast á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins og á heimasíðu flokksins www.xd.is.
Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og allir ætla þeir að bjóða sig fram til áframhaldandi þingsetu. Alls eru tíu þingmenn í kjördæminu.