Hvorki verður sælgæti né skipulögð dagskrá í helstu verslunarmiðstöðvum landsins á öskudag. Smáralind, Kringlan og Glerártorg hafa allar tekið ákvarðanir um að sleppa slíku þetta árið og ætlar Smáralindin að „fresta“ öskudeginum í ár.
Þessa ákvörðun tóku verslunarmiðstöðvarnar vegna kórónuveirufaraldursins.
Börn flykkjast almennt í verslanir á öskudag á höttunum eftir sælgæti. Því verður öskudagurinn líklega með öðru sniði í ár eins og svo margt annað í þessum faraldri.
Almannavarnir hafa gefið út tilmæli um öskudag á tímum Covid. Þar eru settar fram hugmyndir um öðruvísi öskudag sem hentar á þessum tímum. Hér má finna tilmæin.
„Ákvörðun þessi er tekin að vel ígrunduðu máli og til að koma í veg fyrir hópamyndanir og tryggja sóttvarnir til fulls, en vanalega koma fleiri þúsundir barna í Smáralind þennan dag og þeim fylgir mikill fjöldi fullorðinna líka. Við teljum það því samfélagslega ábyrgt af okkur að „fresta“ öskudeginum þetta árið og höldum hann enn hátíðlegri á næsta ári þegar aðstæður verða okkur hliðhollari,“ segir í tilkynningu frá Smáralind vegna málsins.
Í tilkynningu Kringlunnar kemur fram að almannavarnir mælist til þess að foreldrar og forráðamenn haldi börnum í sínu hverfi og sendi þau ekki í sælgætisleiðangra út fyrir hverfin.
„Kringlan mun að sjálfsögðu styðja tilmæli almannavarna og því verður ekki boðið upp á skipulagða skemmtidagskrá né nammi í verslunum, líkt og vonir höfðu staðið til. Við verðum því með aðrar leiðir til að gleðja bestu vini okkar, börnin, á þessum stóra hátíðardegi þeirra,“ segir í tilkynningu Kringlunnar.
Á Glerártorgi á Akureyri er alla jafna mikið um að vera á öskudaginn. Nú er breyting á því, það verður engin söngvakeppni, engin búningakeppni, ekki verður sleginn kötturinn úr tunnunni og ekki verður í boði að syngja í verslunum.