Gloppur í kerfinu varðandi mansal

„Það eru ákveðnar gloppur í þessu kerfi, og þá sérstaklega þegar kemur að mansali,“ segir Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, en í ljósi máls Uhunoma Osayomore hefur hún farið fram á að allsherjar- og menntanefnd Alþingis skoði mál hælisleitenda sem jafnframt eru þolendur mansals.

Eitt af því sem flækir málið í tilviki Osayomore og annarra, sér í lagi þeirra sem koma frá Afríkulöndum, er að þeir verða þolendur mansals á leiðinni. Það flækir málið innan regluverks hér á landi að sögn Olgu Margrétar sem hefur tekið sæti á þingi fyrir Pírata í stað Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur sem er komin í fæðingarorlof.

Málið verður tekið fyrir á fundi nefndarinnar á næstunni og þar gerir Olga Margrét ráð fyrir að fulltrúar frá Útlendingastofnun, Rauða krossinum og Bjarkarhlíð komi til með að fara yfir þennan anga málaflokksins. Í myndskeiðinu er rætt við Olgu Margréti um málið en samþykkt var að taka það fyrir á vettvangi nefndarinnar á fundi síðastliðinn föstudag.

45.000 undirskriftir

Mál Uhunoma Osayomore heldur því áfram að gára vatnið í íslensku samfélagi en eins og stendur hafa ríflega 45 þúsund manns skrifað undir áskorun þar sem stjórnvöld eru hvött til að endurskoða ákvörðun um að synja honum um dvalarleyfi hér á landi vegna mannúðarsjónarmiða. Í myndskeiðinu fyrir neðan má sjá viðtal við Uhunoma sem birtist á mbl.is fyrir skömmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka