Heyrúllur hurfu í krapaflóði

Áin tók heyrúllurnar með sér.
Áin tók heyrúllurnar með sér. Ljósmynd/Bergþór Steinar

„Þetta tók með sér einhverjar fimmtán eða tuttugu rúllur,“ segir Bergþór Steinar Bjarnarson, bóndi á bænum Hjarðarhlíð innst í Skriðdal, um 35 kílómetra suður af Egilsstöðum. Tvö krapaflóð féllu við bæinn í morgun og tóku þau með sér heyrúllur og skemmdu hlöðuvegg.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Austurlandi hefur verið í gildi síðustu daga og hafa nokkur snjó- og krapaflóð fallið í landshlutanum.

Bergþór segir að annað flóðið hafi tekið með sér allt að tuttugu rúllur en það hafi lent á hlöðuhorni og rúllustæði við hlöðuna.

„Einhvern tímann í hádeginu ruddi áin við bæinn af sér ísnum og tók allar rúllurnar. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þær voru margar en þær voru alla vega fimmtán,“ segir Bergþór.

Allt að tuttugu rúllur fóru sína leið.
Allt að tuttugu rúllur fóru sína leið. Ljósmynd/Bergþór Steinar

Hann segir snjóinn ekki hafa farið nálægt íbúðarhúsinu en það standi í raun bak við útihúsin. Bóndinn segist ekki smeykur en mikið þurfi til að taka öll útihúsin niður.

„Maður er ekkert mjög stressaður en það er ekki hægt að útiloka frekari náttúruhamfarir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert