Nýjar tillögur um landamærin á borði Svandísar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði í gær nýjum tillögum um aðgerðir á landamærum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Í tillögunum er ekkert að finna um tilslakanir innanlands. 

Þórólfur greindi frá þessu í viðtali á Bylgjunni í morgun. 

Klukkan 11:03 hefst upplýsingafundur almannavarna og embættis landlæknis. 

Þórólfur hefur ekki viljað greina frá því hvað felst í tillögunum en á upplýsingafundi síðastliðinn fimmtudag sagði hann að til dæmis væri möguleiki að krefja fólk um að framvísa vottorði sem sýndi fram á neikvæða kórónuveiruskimun. Þá væri einnig hægt að skikka fólk í dvöl í far­sótt­ar­húsi við kom­una til lands­ins, eins og hef­ur verið gert með góðum ár­angri í Nýja-Sjálandi og víðar.

Áður var ekki heim­ild í ís­lensk­um lög­um til slíkra ráðstaf­ana en því var breytt á Alþingi fyr­ir skemmstu.

Engin ný kórónuveirusmit greindust innanlands á föstudag og laugardag en um klukkan 11 verður tilkynnt hvort smit hafi greinst í gær. Þrátt fyrir það er ekki útlit fyrir að slakað verði á aðgerðum innanlands alveg strax, að sögn Þórólfs, sem hefur oft bent á að það taki eina til tvær vikur að sjá afleiðingar breyttra aðgerða. Vika er síðan síðast var slakað á aðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert