Rannsókn vegna hópsmits á lokametrunum

Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Rannsókn embættis landlæknis vegna hópsmitsins sem varð á Landakoti á síðasta ári er á lokametrunum. Einhverjar vikur eru í að starfshópur ljúki störfum.

Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna.

„Þetta er umfangsmikið og leggst ofan á önnur störf hjá öllum,“ sagði Alma og bætti við að verkefnið þurfi að fá að taka sinn tíma.

Um miðjan nóv­em­ber var gef­in út bráðabirgðaskýrsla um hópsmitið og þar kom fram að ástandi hús­næðis spít­al­ans hafi verið ábóta­vant og sömu­leiðis að smit hafi komið inn á spít­al­ann með fleiri en einni mann­eskju.  

Spurð út í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans á áhrifunum sem kórónuveiran hefur á þá sem hafa smitast af henni sagði Alma að hún væri enn í gangi og að engar niðurstöður væru komnar.

Áfram á verði 

Alma sagði mikilvægt að vera á verði gagnvart veirunni því ekki þyrfti nema eitt smit til að hún blossaði upp á nýjan leik. Hún gæti verið undir radarnum í nokkrar vikur. „Við getum ekki leyft okkur að ganga út frá því að hún sé ekki í samfélaginu,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert