Rannsókn embættis landlæknis vegna hópsmitsins sem varð á Landakoti á síðasta ári er á lokametrunum. Einhverjar vikur eru í að starfshópur ljúki störfum.
Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna.
„Þetta er umfangsmikið og leggst ofan á önnur störf hjá öllum,“ sagði Alma og bætti við að verkefnið þurfi að fá að taka sinn tíma.
Um miðjan nóvember var gefin út bráðabirgðaskýrsla um hópsmitið og þar kom fram að ástandi húsnæðis spítalans hafi verið ábótavant og sömuleiðis að smit hafi komið inn á spítalann með fleiri en einni manneskju.
Spurð út í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans á áhrifunum sem kórónuveiran hefur á þá sem hafa smitast af henni sagði Alma að hún væri enn í gangi og að engar niðurstöður væru komnar.
Alma sagði mikilvægt að vera á verði gagnvart veirunni því ekki þyrfti nema eitt smit til að hún blossaði upp á nýjan leik. Hún gæti verið undir radarnum í nokkrar vikur. „Við getum ekki leyft okkur að ganga út frá því að hún sé ekki í samfélaginu,“ sagði hún.