Veðurstofa Íslands fylgist grannt með stöðunni á Seyðisfirði. Þar stytti upp í nótt og er staðan því betri en í gærkvöldi, að sögn hópstjóra ofanflóða hjá Veðurstofunni. Enn er rýming vegna snjóflóðahættu í gildi hvað varðar þrjú hús á svæðinu.
Rýmingin tók gildi klukkan níu í gærkvöldi en sjö manns þurftu að yfirgefa heimili sín vegna hennar.
„Það stytti upp í nótt eins og veðurspár gerðu ráð fyrir. Það verður úrkomulítið í dag þannig að aðstæður eru betri og fara batnandi,“ segir Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Engin snjóflóð féllu á Seyðisfirði í nótt. Þá hefur ekki verið ákveðið hversu lengi fyrrnefnd rýming gildir en það verður skoðað í birtingu. Ekki er gert ráð fyrir að rýma þurfi fleiri hús.