Stal greiðslukortum og tók út 1,2 milljónir

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa stolið greiðslukortum og …
Maðurinn var fundinn sekur um að hafa stolið greiðslukortum og tekið út um 1,2 milljónir á fimm dögum og greitt fyrir ferðatölvu upp á tæplega 300 þúsund. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Karlmaður um þrítugt hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað, fjárdrátt, vopnalagabrot og fíkniefnabrot á árunum 2017-2019. Tók maðurinn meðal annars út háar fjárhæðir á greiðslukort sem hann hafði stolið.

Dómur í máli mannsins féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Kemur þar fram að hann hafi játað öll sakarefni, en þar á meðal að hafa stolið greiðslukortum af konu í september árið 2018 og í tólf skipti tekið út samtals 1,2 milljónir í hraðbönkum á fimm daga tímabili.

Þá sveik maðurinn einnig út Apple-ferðatölvu með því að greiða með kreditkorti sem hann hafði stolið. Var um að ræða tæplega 300 þúsund króna reikning.

Maðurinn hafði áður stolið hörðum disk úr Elko og var síðar tekinn fyrir fíkniefnaakstur án ökuréttinda. Við það tækifæri var hann einnig tekinn með hníf og var sú háttsemi talin vera brot á vopnalögum. Var maðurinn einnig fundinn sekur um fjögur önnur fíkniefnalagabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert