„Alls verður 280.000 einstaklingum á Íslandi boðin bólusetning, það er að segja öllum þeim sem eru 16 ára og eldri.“ Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á þingi þar sem hún flutti skýrslu um Covid-19-faraldurinn og horfurnar fram undan.
Hún sagði að bólusett væri með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna í hverri viku og að verkið gangi vel.
Gera má ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga hér á landi fyrir lok júní næstkomandi með áðurnefndum bóluefnum.
„Þetta eru þau bóluefni sem hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu,“ sagði Svandís á þingi.
„Þar að auki má vænta bóluefna frá fleiri lyfjaframleiðendum á öðrum ársfjórðungi að því gefnu að þeim verði veitt umrætt leyfi,“ sagði Svandís.
Hún benti enn fremur á að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinni að gerð bólusetningardagatals á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um afhendingu bóluefna á næstu mánuðum.
Þar verða birtar upplýsingar um forgangshópa og hvenær einstaklingar í hverjum hópi geta vænst þess að fá boð um bólusetningu. Þessum upplýsingum er fyrst og fremst ætlað að veita fólki grófar upplýsingar um framvindu bólusetninga gegn Covid-19 hér á landi.