Guðni Einarsson
„Það setti að mér ugg við að lesa fréttir af þessu máli,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um manndrápið í Rauðagerði aðfaranótt sunnudags.
„Þetta ber öll merki þess að hafa verið aftaka í ósköp dæmigerðu íbúðahverfi í Reykjavík. Svo getur þetta hafa verið eitthvað persónulegt á milli geranda og þolanda. Við eigum eftir að fá meiri upplýsingar um hvernig þeir tengjast og hvort þeir tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta þurfum við að vita til að sjá heildarmyndina.“
Helgi kvaðst ekki vita meira um málið en lögreglan hefur gefið upp og greint hefur verið frá í fréttum. „Ef grunsemdir lögreglunnar eru réttar þá er þetta svipað því sem við höfum áður séð gerast erlendis. Þetta hefur gerst á Norðurlöndum þar sem eru gengjastríð. Þau takast á um svæði, viðskipti og fleira. Þetta gæti hafa verið angi af slíkri baráttu eða uppgjöri,“ sagði Helgi en lengra viðtal við Helga er að finna í Morgunblaðinu í dag.