Biðtími úr 2 til 4 mánuðum í 18 til 20

Fjármögnun teymisins er hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala.
Fjármögnun teymisins er hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala. mbl.is/Hari

Biðtími eftir þjónustu hjá átröskunarteymi Landspítala hefur lengst úr tveimur til fjórum mánuðum í átján til tuttugu mánuði á fjórum árum. Þá hefur stöðugildum innan átröskunarteymisins fækkað um 2,3 stöðugildi á sama tímabili og nú eru einungis 5,2 stöðugildi innan teymisins. Á sama tíma hefur spurn eftir þjónustu teymisins aukist.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns. 

Átröskunarteymið var stofnað 2006 og er fjármögnun teymisins hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala. Teymið er þverfaglegt og sinnir greiningu og meðferð sjúklinga frá 18 ára aldri sem kljást við meðalalvarlega til alvarlega átröskun. Þá sinnir teymið einnig sérhæfðri ráðgjafaþjónustu. 

490 konur og 60 karlar

Á síðastliðnum fimm árum hafa alls 490 einstaklingar fengið þjónustu á dag- og göngudeild átröskunar á Landspítala. Meirihlutinn voru konur, eða alls 430, en 60 karlar fengu þjónustu hjá dag- og göngudeildinni. Á hverju ári hefur teymið sinnt á bilinu 150–200 einstaklingum. Aldursdreifing þeirra sem fengu þjónustu var frá 18 ára til 70+ ára. Flestir voru á aldrinum 20–29 ára eða 394 einstaklingar.“

Árið 2016 fengu 200 einstaklingar þjónustu hjá teyminu en á síðasta ári hafði þeim fækkað niður í 107. Á sama tíma lengdist biðtíminn verulega. Þannig biðu 12 einstaklingar eftir þjónustu árið 2016, 18 einstaklingar 2017 og 22 árið 2018. Árið 2019 fjölgaði þeim sem biðu mikið og voru þeir 53 það ár. Í fyrra biðu 84 einstaklingar eftir þjónustu teymisins. 

Í svarinu er tekið fram að farið sé yfir allar tilvísanir sem teyminu berast og málum forgangsraðað eftir alvarleika. Meðalbiðtími endurspeglar því ekki lengd biðtíma ef veikindi eru alvarleg.

Svandís Svavarsdóttir og Andrés Ingi Jónsson árið 2017. Andrés setti …
Svandís Svavarsdóttir og Andrés Ingi Jónsson árið 2017. Andrés setti fyrirspurnina fram og Svandís svaraði henni. Andrés sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í nóvember árið 2019 og hefur nú boðið fram krafta sína á vettvangi þingflokks Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaður úr 73 milljónum í 55 milljónir

Í fyrirspurninni spurði Andrés hvernig fjárveiting til átröskunarteymisins hafi þróast frá 2016 til 2020. Í svarinu segir:

„Átröskunarteymið hefur ekki verið með sérstaka fjárveitingu innan geðþjónustu. Áætlaður kostnaður átröskunarteymisins árið 2020 var um 55 millj. kr. Þegar teymið var fjölmennast árið 2016 má áætla að kostnaðurinn hafi verið 73 millj. kr. (á verðlagi ársins 2020).“

Þá spurði Andrés einnig um ástæður þess að bið eftir þjónustu átröskunarteymisins hafi lengst. Engin ein skýring er á því, samkvæmt svari heilbrigðisráðherra sem nefnir fjórar ástæður fyrir lengri bið.

  1. Húsnæðisvandi, en mygla kom upp í húsnæði átröskunarteymisins á Hvítabandinu sem leiddi til óvinnufærni hluta starfsmanna. Í kjölfarið, eða árið 2019, var teymið flutt í göngudeildarhúsnæði geðþjónustunnar á Kleppi. Vegna þessa varð hlé á innskriftum nýrra sjúklinga í teymið frá mars til október 2019.
  2. Aukin eftirspurn hefur verið eftir þjónustu teymisins.
  3. Starfsmönnum í teyminu fækkaði, m.a. vegna veikinda og skorts á sérhæfðu starfsfólki.
  4. Í Covid-faraldrinum nýttu margir sér fjarheilbrigðisþjónustu sem teymið bauð upp á en aðrir kusu að vera áfram á biðlista eftir þjónustu þar til aðstæður yrðu aðrar.

Þá segir Svandís að hún leggi áherslu á að „stjórnendur heilbrigðisstofnana forgangsraði þjónustu stofnana í ljósi þarfar hverju sinni, eins og kveðið er á um í reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa nr. 1111/2020. Húsnæðismál teyma á geðsviði Landspítala sem búið hafa við ófullnægjandi húsakost eru til skoðunar í ráðuneytinu.“

Ekki hægt að veita sérhæfða þjónustu sem þessa á mörgum stöðum

Þá kemur einnig fram í svarinu að vegna þess hversu sérhæfðrar þekkingar er þörf til að sinna þeim hópi sem glímir við átröskun sé ljóst að hér á landi sé ekki hægt að veita svo sérhæfða þjónustu á mörgum stöðum.

„Þannig gegnir sérhæft átröskunarteymi á geðþjónustu Landspítala hlutverki þekkingarmiðstöðvar með tilliti til gagnreyndrar meðferðar fyrir fólk sem greinist með átröskun. Hlutverk slíkrar þekkingarmiðstöðvar er m.a. að vera ráðgefandi og sinna handleiðslu fyrir fagfólk í fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu, sem er meginmeðferðaraðili fólks sem glímir við geðrænar áskoranir,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert